Bévítans eldgos

Young girl (3) looking a bit pissed. (Christopher Lund/©2010 Christopher Lund)

Ég er í eldgosafýlu. Grímsvatnafýla reynist þó ekki eins slæm og síðasta eldgosafýla. Ég er nefnilega búinn að prófa að fara inn í öskufall í síðasta gosi. Það er að vissu leyti mögnuð upplifun, en í þetta sinn virðist það aðallega vera viðbjóður.

Mig langar hins vegar mikið að komast í tæri við eldstöðina, líkt og Jón Ólafur Magnússon og félagar sem voru á leið heim úr jeppaferð á jökulinn þegar byrjaði að gjósa. Stórkostlegar myndir þarna, en það virðist samt snúið að koma stærðinni og kraftinum til skila. Vídeóið virkar betur fyrir kraftinn, en mér finnst samt vel útfærð ljósmynd geta sagt meira en vídeó.

Við eigum orðið mjög mikið af hæfileikaríku fólki með myndavélar. Það er vel. Ljósmyndun hefur líklega aldrei verið jafn spennandi og í dag. Tæknin opnar sífellt nýja möguleika – og þó að vissulega komi tímabil þar sem maður sér sömu myndinar endurteknar út í eitt, þá er svo ótrúlega margt að gerjast núna í þessu fagi. Það er m.a. að renna saman við kvikmyndatökur og hljóðvinnslu. Sköpunin hefur aldrei verið jafn auðveld, svo maður tali ekki um dreifinguna.

En það er ekki þar með sagt að dreifa skuli öllu efni sem framleitt er. Þar stendur hnífurinn dulítið í kúnni. Munurinn á góðum ljósmyndara og frábærum eru myndirnar sem við þurfum ekki að sjá.

Er gaman og bros bannað?

Heitasta umræðuefni meðal ljósmyndara í dag er vafalaust nýfallnir dómar er varða rekstur ljósmyndastofu án þeirra réttinda sem þarf til samkvæmt lögum. Margir eru reiðir og netheimar loga í skrifum þar sem alls konar fullyrðingar koma fram. Það er nokkuð tilgangslaus vettvangur til svona heitrar umræðu – spjallborðið.

Sjálfur held ég að það sé afar hæpið að banna fólki að hafa lifibrauð af sköpun sinni, sama hver hún er. Ljósmyndun snýst um sköpun fyrst og fremst. Þegar maður ætlar að lifa af því að selja sköpun sína er ljóst að sá hinn sami þarf að bjóða vöru sem eftirspurn er eftir. Að öðrum kosti selst varan ekki og vonlaust að fá fyrir salti í grautinn.

Vinsældir Gamanmynda og Brosbarna hafa ekki farið framhjá neinum sem heimsækir vefsíður eins og barnaland og facebook. Ljósmyndarar sem telja sig vera að missa af viðskiptum vegna þessarar samkeppni þurfa fyrst og fremst að spyrja sjálfan sig að því hvers vegna? Er það verðið? Er það varan? Er það þjónustan? Hvað voru þessar ljósmyndastofur að bjóða sem var svo vinsælt?

Mig grunar að ein skýring vinsældanna sé sú að þessar stofur gáfu viðskiptavinum sínum einfaldlega það sem þeir vildu. Margar myndir á lágu verði og fullan yfirráðarétt yfir afgreiddum myndum. Fólk vill fá MIKIÐ fyrir peninginn. Vandamálið er að MIKIÐ er ekki endilega betra. Þegar ljósmyndun er seld í magni en ekki gæðum er útkoman sjaldnast framúrskarandi að mínu mati.

Önnur skýring er án efa að dreifing myndanna á Netinu virkaði sem frábær auglýsing. Flestir ljósmyndarar í dag eru með heimasíðu, en hversu margir kunna að næla í heimsóknir á hana? Hversu margir eru virkilega að nota tæknina til að búa til traffík?

Margir spyrja: “Hver var tilgangur kærunnar?” Það er ekki hægt að skilja hann á neinn annan hátt en þann að ljósmyndarafélagið og/eða viðkomandi ljósmyndarar vildu losna við umrædd fyrirtæki af markaði. Neytendavernd eru frekar léleg rök finnst mér. Það fylgir því engin hætta að fara í myndatöku hjá ófaglærðum.

Fyrir mér er ljósmyndun lífstíll. Ég dey ef ég skapa ekki. Ég er svo heppinn að geta framfleitt mér og mínum við það að selja sköpun mína og þjónustu. Það eru forréttindi sem ég myndi ekki vilja svifta nokkurn mann. Sama í hvaða skóla hann fór – eða ekki.

Þetta var rokk!

Elísabet Þráinsdóttir a.k.a Beta rokk

Stundum eyðir maður heilu kvöldi í að hræra fram og tilbaka í WordPress stillingum. Þetta byrjar yfirleitt þannig að ég ætla að prófa að breyta eitthvað smá og þá fer allt í steypu. Kvöldið í kvöld var eitt af þeim. Rosa stuð. En að lokum náði ég að gera þær breytingar sem mig langaði að gera. Náði að klóra mig í gegnum sérsniðið þemað og fá dótið til að virka aftur með Photoshelter. Það var rokk!

Nú get ég sett nánast allt myndefni inn á síðuna beint frá Photoshelter sem hýsir myndasafnið mitt. Hvort sem það eru stakar myndir eða myndasýningar. Ég hef gert það áður svo sem, en það hefur verið mikið meiri handavinna og stuðningurinn við þemuna ekki verið 100% í lagi.

Stundum borgar sig að þrjóskast bara við þó að maður kunni lítið sem ekkert…

Græjutest > Nikon SU-800

Nikon SU-800 þráðlaus sendir.
Nikon SU-800 þráðlaus sendir.

Ég fékk lánaðan Nikon SU-800 þráðlausan sendi fyrir flöss hjá Beco. Líkt og ST-E2 sendirinn frá Canon gerir SU-800 ljósmyndurum kleift að staðsetja flössin burt frá sjálfri myndavélinni og skapa þannig mun athyglsiverðari lýsingu og dýpt.

Ég átti ST-E2 fyrir Canon á sínum tíma, en seldi hann fljótlega þar sem ég var aldrei öruggur hvort hann myndi virka eða ekki. Gallin við þessa senda er að þeir nota innrauða geisla og eru því háðir því að “sjá” flössin til þess að hleypa af. Notkunarsviðið takmarkast mikið við það. Ég var að vona að SU-800 væri að nota aðra tækni en svo er ekki. Mér finnst þó Nikon sendirinn vera nokkuð skárri en bróðir hans frá Canon, en engu að síður náði ég auðveldlega að skapa aðstæður þar sem hann virkaði ekki.

Stjórnun á SU-800 er aftur á móti þægileg og auðvelt að setja upp allt að þrjá “hópa” af flössum sem öll geta haft mismunandi styrk innbyrðis. i-TTL ljósmælingin með þessu kerfi er mjög góð. Á myndinni hér fyrir neðan stillti ég inn +0,7 fyrir flassið á SU-800, valdi mér ljósopið sem ég vildi vinna á vélinni og kerfið sá um rest. Hvert skotið á fætur öðru var rétt lýst og alltaf var blandan með umhverfisljósi rétt eða 2/3 undir flassinu. Það er líka kostur að flassið gefur frá sér píp til að láta vita hvort aflið hafi verið nægilegt og líka þegar það hefur hlaðið sig fyrir næsta skot. Á fullum krafti þarf auðvitað að hinkra svolítið eftir því.

Þetta þráðlausa kerfi frá Nikon leysir ekki öll verkefni. Það er vel nothæft fyrir ákveðnar tökur, sérstaklega þar sem maður reiknar ekki með því að þurfa að setja ljósið langt frá vélinni. Upplýsingar frá Nikon segja að virknin sé bundin við cirka 20m fjarlægð og innrauða augað sjái 78 gráður lárétt og 60 gráður lóðrétt. Það eru frekar þröng horn, en gengur fyrir ákveðna hluti.

Benni í Björnslundi. ©2009 Christopher Lund.
Benni í Björnslundi. ©2009 Christopher Lund.

Hingað til hef ég notað Pocket Wizards Plus II sendana, hvort sem það er með þessum litlu myndavélaflössum eða með stærri studioljósum. Þeir nota útvarpsbylgjur og því ekki háðir því að vera í “sjónlínu” frá hvor öðrum. Þeir styðja hins vegar ekki TTL ljósmælingu á neinn hátt. Það væri draumur að geta sameinað virkni TTL og áreiðanleika útvarpsbylgna Pocket Wizards.

Þeir hjá Pocket Wizard hafa nú þegar búið til slíkar græjur fyrir Canon flössin sem seljast víst eins og heitar lummur í BNA þrátt fyrir frekar hátt verð. Sambærilega græjur eru í vinnslu fyrir Nikon kerfið líka. Mér sýnist þessi lausn vera a.m.k. tvisvar sinnum dýrari – og ef þú notar fleiri en eitt flass þarf að kaupa móttakara fyrir hvert þeirra sem hækkar verðið í takt.

Að geta notað TTL ljósmælinguna er mikill kostur. Oft hefur maður takmarkaðann tíma eða aðstæður bjóða ekki upp á að maður sé að ljósmæla og stilla kraftinn á flössunum fram og tilbaka handvirkt. Ennfremur bjóða bæði Canon og Nikon upp á ofur-hraða sync tíma noti maður flössin þeirra með TTL. Nýja Pocket Wizard lausnin viðheldur þeim möguleika.

Hvað á maður þá að veðja á? Fyrst er að finna út hvort SU-800 mæti þínum þörfum. Það leysir verkefnin með sóma, svo lengi sem þú ferð ekki út fyrir skilgreint notkunarsviðið. Ég gæti vel hugsað mér að eiga SU-800, en ég veit að ég yrði að vera með Pocket Wizard-inn til vara. Kannski verður það úr sögunni þegar nýju græjurnar koma frá PW?