Raufarhöfn

Surf and turf at Raufarhöfn, Iceland. (Christopher Lund/©2010 Christopher Lund)

Stundum kemur það fyrir að ég sest niður við tölvuna að kveldi til að vinna í ákveðnu verkefni, en afvegaleiðist í eitthvað allt annað. Oftar en ekki eru það myndir sem ég var búinn að krukka eitthvað í, en ekki haft tíma eða nennu til að klára. Það er enginn skortur á slíku efni á mínum hörðu diskum.

Sumarið 2009 tók ég svolítið á filmu hér og þar. Ekki fallegt landslag, ekki fjölskyldumyndir, ekki neitt nema bara það sem vakti áhuga minn þær mínútur eða klukkustundir sem ég eyddi á hverjum stað.

Svona ljósmyndun er mín hugleiðsla. Get ekki lýst því, en ég dett í hlutlausan. Hugsa ekki heldur ljósmynda bara. Það fylgir því dásamlegt frelsi að hugsa ekki. Elta bara sjálfan sig án þess að pæla neitt hvert maður er að fara.

Ég veit ekki hvort þessar myndir frá Raufarhöfn sem teknar voru í tveggja tíma hugleiðslu séu ‘góðar’. Mér þykir vænt um þær því þær kippa mér beint í tilfinninguna í hvert sinn sem ég skoða þær. Það finnst mér vera ljósmyndun. Ég held að ef tilfinningin smitast eru myndirnar ‘góðar’.

Út að leika

Suma daga verður maður bara að fara út að leika. Mánudagar eru sérstaklega góðir í það. Ekki síst ef maður þarf að prófa nýjan bíl. Ég er loksins kominn aftur á Land Rover Discovery. Það tók svolítinn tíma að landa þessum en það gekk fyrir rest. Fyrri eigandi hefur hugsað vel um hann og það leyndi sér ekki í dag. Hrikalega mjúkur og fínn, hleypti úr niður í 12 pund og þá fann maður varla fyrir stórgrýtinu.

Ég ákvað að taka smá hring sunnan við Skjaldbreið. Fór austan megin inn á Bláskógarheiðina, svo  meðfram Skjaldbreið að Hlöðufelli og suður Rótarsand niður á Laugarvatn. Það blés svolítið upp á Rótarsandi eins og sést á þessari mynd hér fyrir neðan. Fínn sandurinn minnti mig á það þegar ég var að mynda í öskufalli úr Eyjafjallajökli. Hugsanlega er hún eitthvað í bland þarna.

Smellti mér svo upp á Lyngdalsheiði og af henni aftur norður að Skjaldbreið. Hafði ekki farið þessa leið áður en hún er mjög falleg í kvöldsólinni, þar sem maður þræðir með fjöllunum. Þó að myndavélin hafi verið með í för tók ég nú fáar myndir. Þetta var meira svona ökuferð sko!

Loksins sumarfrí!

Þá er maður kominn í langþráð sumarfrí. Við fjölskyldan ætlum að dvelja á Norðurlandi næstu tvær vikurnar, en hér við leigðum fallegt hús á Ytri-Bakka rétt við Hjalteyri. Við ætlum okkur að vera hjólafólk í sumar, allir eru með reiðfákana sína með þökk sé Thule (ekki bjórnum).

Þegar ég lagði af stað úr Reykjavík í dag var ótrúleg hitamolla. Hér fyrir norðan er hins vegar smá Eyjafjarðarþoka. Finnst ykkur hún ekki falleg?

Út að leika

Róver á heimavelli við Hátind. ©2010 Christopher Lund

Í kvöld fór ég í smá leiðangur við Folaldadali og nágrenni. Við Jórugil voru þessar kindur með lömb. Þær kipptu sér ekkert upp við Róver, enda er hann svo vinalegt landbúnaðartæki.

Er alltaf gott veður á Akureyri?

Við Árni fórum norður um helgina. Ætlunin var að fara í Hlíðarfjall og renna sér svolítið á skíðum. Það var nebblega búið að segja okkur að það væri alltaf gott veður á Akureyri og að skíðasvæðið væri opið hátt í þrjú hundruð daga á ári.

Við brunuðum norður á föstudeginum á Lund Rover, náðum í lyklana að íbúðinni, smelltum okkur í gallann og svo beinustu leið upp í fjall. Þar var reyndar svolítið tómlegt, enda nýbúið að loka svæðinu sökum hvassviðris. Æði.

Helgin leið og ekki opnaði fjallið. Við félagarnir erum því vel “bernaise-aðir” eftir helgina. Bautinn, Greifinn og Strikið. En ekki Friðrik V. Hann er lokaður eins og víðfrægt er orðið. Minnist þess ekki að nokkur veitingarstaður hafi fengið eins mikla athygli fyrir það að fara á hausinn?

En vessgúvel. Hér er smá tæmlaps fyrir ykkur. Akureyri – Reykjavík á 3 mín og 24 sek. Og það á Land Rover!

Tinni, Lundinn, Mikki og Leiðsögunám

Varðeldur við Ísólfsskála. ©2009 Christopher Lund
Varðeldur við Ísólfsskála. ©2009 Christopher Lund

Ég hef í nokkurn tíma látið mig dreyma um að eiga Land Rover. Eftir sumarfríið var ég orðinn svo þreytandi að konan mín beinlínis sagði mér að koma þessu út úr kerfinu. Og úr varð að ég eignaðist Tinna. Ég var búinn að aka um á þessum yndislega bíl í cirka tvær vikur þegar ég sá auglýsingu á islandrover.is um ’98 módel af stuttum 35″ breyttum Defender sem hét Kópur. Áður en ég vissi af átti ég tvo.

Ruglaður? Ég vill frekar nota orðið ástríðufullur.

Ég seldi svo Tinna austur á Eskifjörð og gat einbeitt mér að því að dytta að Kóp, sem fékk reyndar nafnið Lundinn eftir ábendingar góðra vina við Ísólfsskála.

Lundinn í meikóver. ©2009 Christopher Lund.
Lundinn í meikóver. ©2009 Christopher Lund.

Lundinn er loksins að kominn aftur á götuna eftir nett meikóver. Ég hef nú ekki verið þekktur fyrir handlagni þegar kemur að bílum, en Land Rover er svona ökutæki sem laðar fram þessa eiginleika í eigendum sínum. Og ekki má gleyma góðri aðstoð Árna vinar míns. Reyndar er meikóverinu ekki alveg lokið. Ég á eftir að fá ljósa- og toppgrindina úr sandblæstri og polýhúðun. Toppgrindin var meira ryðguð en ég hafði gert mér grein fyrir og því þarf ég að láta smíða í og styrkja áður en hún verður máluð.

Mikki heldur áfram að heilla fjölskylduna. Þetta er hinn skemmtilegasti köttur, forvitinn og fimur eins og kettlingar eru gjarnan. Það er mikill leikur í honum og Ari Carl hefur fengið viðurnefnið “Kattaþreytarinn”. Það er gott að geta leitað til hans til að þreyta kisa aðeins, því annars er svolítið partý hjá Mikka þegar fjölskyldan er að fara að leggjast á koddann.

Ég skráði mig svo í Leiðsögunám á háskólastigi í Endurmenntun HÍ í síðustu viku. Þetta var hugmynd sem skaut bara upp kollinum sí svona. Ég fór að kanna möguleikana á Leiðsögunámi og leist best á námið í HÍ. Reyndar fór það af stað 14. ágúst. En ég var hvattur til að skella mér samt í hópinn og lesa upp það sem búið er að fara yfir. Námið er einnig boðið í fjarkennslu þannig að ég hef aðgang að upptökum af fyrirlestrunum sem ég missti af. Það er skondið að setjast aftur á skólabekk eftir langt hlé. Maður er nett ryðgaður í akademísku vinnubrögðunum, en ég er mjög spenntur fyrir náminu og er ánægður með þessa ákvörðun mína.

Þannig að það er nóg fyrir stafni.

Hugmyndin er að samtvinna ljósmyndun og leiðsögn í framtíðinni, með smá dass af Land Rover.