Ljósmyndaferð í janúar

Leiðsöguárið byrjaði með skemmtilegri ljósmyndaferð með þeim félögum Harry og Dougie. Þeir höfðu samband í desember og vildu fá 5 daga ferð til að ljósmynda norðurljós og veturinn á Íslandi.

Ég sótti þá félaga út á flugvöll seinnipart á þriðjudegi og svo var haldið beint að stað með stefnuna austur. Ég stoppaði fyrst með þá í Seltúni við Krýsvík, svona rétt til að koma þeim í gang – þó að birtan væri alveg að hverfa. Við ókum svo nýja suðurstrandarveginn og fengum dýrindis kvöldmat í Rauða húsinu á Eyrarbakka.

Fyrsti gististaður var hins vegar í Vík í Mýrdal á Hótel Lunda. Morguninn eftir var grenjandi rigning og rok, hressandi suðaustan fyrir allan peninginn. Við fórum af stað um sólarupprás og ljósmynduðum í Reynisfjöru. Þessi staður er nú ekkert síðri í góðu roki!

Reynisfjara black sand beach on the south coast of Iceland. Reynisdrangar sea stacs in background. January morning twilight. (Christopher Lund/©2013 Christopher Lund)

Það þarf að koma gestum okkar vel í skilning um hættuna í Reynisfjöru, en aldan þar getur verið mjög viðsjárverð. Sunnan rokið og rigning gerði okkur líka erfitt fyrir að mynda, enda komu regndropar á linsuna á augabragði. Þetta var fyrsta myndin sem ég tók þennan morgun og sú eina sem reyndist nothæf.

Við eyddum samt morgninum þarna, fórum svo í pylsur í Víkurskála og svo var líka ljósmyndað í fjörunni í Vík. Harry hefur komið tvisvar áður til Íslands og er gjörsamlega vitlaus í SS pylsur. Ekki sá fyrsti af mínum kúnnum sem kann vel við pylsurnar okkar. Lambakjötið í bland við svínið gerir gæfumuninn 🙂

Á leiðinni austur stoppuðum við hjá Foss á Síðu. Harry hafði orð á því að það væri nú meira líf yfir fossinum, en hann sá hann síðast í þurrkatíð að sumri. Regnið kom nú lárétt úr austri, svo það var lítið annað að gera en að mynda í skjóli við bílinn eða húsvegg. Þetta gamla skilti heillaði mig þarna við húsvegginn.

The old sign for the farm Foss á Síðu lies on the ground, by one of the older houses. The waterfall (also called Foss á Síðu) in background. The water comes from a lake called Þórutjörn. (Christopher Lund/©2013 Christopher Lund)

Ferðinni var svo haldið áfram í átt að þjóðgarðinum í Skaftafelli. Við ljósmyndum við Svínafellsjökul áður en birtan kláraðist og héldum svo áleiðis til Bjössa í Gerði, en þar áttum við eftir að gista næstu þrjár næturnar. Það er alltaf gott að koma í Gerði. Eitthvað fannst nú Dougie samt rúmin vera of lítil. Held að hann hafi bara verið fúll út af því að Harry fékk herbergi með tvíbreiðu rúmi. Það leystist þó allt farsællega og báðir voru þeir ánægðir með dvöl sína í Suðursveitinni.

Daginn eftir héldum við út að Jökulsárlóni til að sjá hvort það væri ekki ísjakar á ströndinni. Og maður lifandi, ég hef aldrei séð jafn mikið af ís á ströndinni! Bæði voru klakarnir margir og stórir. Það er strembið að mynda við þessar aðstæður, því þeir renna bara allir saman í rammanum. Ströndin var líka orðinn brött út af briminu og hvergi góður staður til að fanga ölduna á hreyfingu í kringum ísinn. Þá þarf maður að reyna finna form og þess háttar, eða bara skilja vélina eftir í bílnum og taka smá hugleiðslu á þessum magnaða stað.

Eftir dágóðan tíma á ströndinni fórum við upp að lóninu. Þar voru Bandaríkjamenn að taka myndir fyrir fyrirtæki sem framleiðir blautbúninga. Asskoti fínt að fá gaurinn inn í rammann á réttu augnabliki, rétt þegar rofaði aðeins til á himni og þessi hlýja birta kom í skýin fyrir ofan ísinn á lóninu.

Jökulsárlón Glacial Lagoon, Southeast Iceland. A surfer wearing a wet suite paddeling out towards the ice (Christopher Lund/©2013 Christopher Lund)

Dagurinn var fljótur að líða og gestirnir voru afar sáttir í þessu undralandi íssins. Daginn eftir áttum við pantaða íshellaferð með Einari í Hofsnesi. Einar er mikill fagmaður og frábær náungi. Eitthvað fékk Harry þó innilokunarkennd þegar inn í íshellinn var komið. Ég sá að hann var mjög óöruggur á leiðinni inn í hann, enda bæði sleipur ís og mjúk drulla inn í hellinum. Harry er slæmur í hnjánum og átti erfitt með að fóta sig. Þegar við vorum komnir inn var eins og hann ætlaði að fara að taka upp vélina og mynda, en hætti svo snarlega við og dreif sig bara út aftur. Ekkert við því að gera og við Dougie gátum lítið talað um fyrir honum.

Einar Rúnar Sigurðsson, Mountain Guide by the entrance of an Ice Cave in Svínafellsjökull Outlet Glacier.d (Christopher Lund/©2013 Christopher Lund)

Eftir íshellaferðina fór ég með þá félaga yfir í þjóðgarðinn og við fengum fallega birtu til að mynda speglun í tjörnum við Skaftafell. Veðrið var hvað best þennan dag og magnað hvað það er  staðbundið á þessu svæði. Við ókum úr rigningarsudda við Jökulsárlón og við Hof var brjálað rok, en dúnalogn inn við Svínafellsjökul aðeins örfáum kílómetrum austar. Fjöllin og jöklarnir búa til sín eigin veðurkerfi og ómögulegt að reiða sig of mikið á veðurspár á þessu svæði.

Svartifoss (Black Fall) waterfall in Skaftafell National Park in Iceland. The fall is surrounded by dark lava columns of Basalt, which gave rise to its name. (Christopher Lund/©2013 Christopher Lund)

Á síðasta degi var svo ekið í vestur í átt að höfuðborginni. Þeir mynduðu reyndar aftur ís á ströndinni í upphafi dags og svo byrjuðum við að bruna tilbaka. Ég vildi ljúka degi upp á Dyrhólaey og til að ná því mátti ekki stoppa of lengi í myndastoppunum á leiðinni. Við fengum ágætis birtu við Lómagnúp og náðum að ljúka ljósmynduninni upp á Dyrhólaey í allra síðustu birtu dagsins. Lýsingartíminn á myndinni þaðan er rétt tæpar fjórar mínútur – enginn LEE big stopper nauðsynlegur í þetta skiptið.

The small peninsula, or promontory, Dyrhólaey (120m high) is located on the south coast of Iceland, not far from the village Vík. It was formerly an island of volcanic origin, which is also known by the Icelandic word eyja meaning island. This view is to the south. (Christopher Lund/©2013 Christopher Lund)

Áður en ég kom þeim félögum út í Keflavík tók ég smá rúnt um Reykjavík – enda hafði Dougie aldrei séð borgina. Harry fékk einn skammt í viðbót á Bæjarins Beztu og staðfesti að þær voru töluvert betri þar enn í Víkurskála 🙂

 

Megapixlasumar

A river flowing in front of the farm Hraun in Valley Öxnadalur, North Iceland. In background rays of light hit Mount Drangafjall. The Peak Hraundrangi (1075m) was first climbed in 1956. (Christopher Lund/©2012 Christopher Lund)
Hraun í Öxnadal. Nikon D800E, Ziess Distagon 21mm f/2.8, f/11 – 30s @ ISO 100

Nú er orðið langt um liðið síðan ég póstaði færslu hér inni. Sumarið var nefnilega tími ferðalaga og eftir sumarið er ég einnig kominn með góða reynslu af notkun á Nikon D800/E og get óhikað sagt að ég sé afar sáttur við þessa vélar.

Það var að sama skapi lítið um brúðkaupsmyndatökur í sumar, í ljósi þess að ég sást varla í Reykjavík. Þó ljósmyndaði ég tvö brúðkaup núna síðsumars. Það fyrra var það fyrsta sem ég notaði D800E og D800 saman. Eftir það lét ég hafa eftir mér á feisbúkk að D800 væri ekki málið í brúðkaup.

Elín og Sæmi. Nikon D800E, Nikkor AF-S 70-200mm f2.8G VR II, f/11 – 1/200s @ ISO 100

Sko – það var fínt að skjóta brúðkaup með D800/E  vélum – en ekki alveg eins þægilegt að að vinna úr ríflega þúsund 36 megapixla skrám! Ég tók því ákvörðun um að fara líka í Nikon D4, þrátt fyrir að hafa haldið því fram að ég þyrfti ekki slíka vél. Maður fær næstum tvær D800 fyrir sama verð og eina D4, svo ég var svolítið tvístígandi að fara út í þessa fjárfestingu.

Það tók mig þó ekki langan tíma að finna að D4 er frábært verkfæri. Mér finnst hún sneggri en D800 að fókusera og breytingar á hönnun á húsinu og hnöppum frá D3s eru klárlega til bóta. Breytingarnar á autofókus-hnappi og hvernig skipt er á milli kerfa og fjölda fókuspunkta finnst mér ekki afturför eins og aðrir hafa kvartað yfir. Þvert á móti er nú auðvelt að skipta á milli kerfa án þess að taka augað af skoðaranum.

Ég er þó minna hrifinn af breytingu á minniskortategundum. Ég hefði viljað sjá tvær CF kortaraufar í stað þessa nýja XQD + CF. Það flækir málin töluvert fyrir mann að þurfa að vera með tvær tegundir af kortum í tökum. Að sama skapi hefði ég viljað sjá D800 með tvær SD kortaraufar  í stað SD + CF.

Enn bólar ekkert á megapixlamonsterinu frá Canon. Þeir þurfa líkast til meiri tíma til að fullkomna það kvikindi. Þeir virðast þó vera með svar við Nikon D600 ef eitthvað er að marka orðróminn. Það eru engin lát á þróuninni og Photokina 2012 virðist vera töluvert meira spennandi en 2010. Það verður spennandi að sjá hvað rætist varðandi nýjar vörur frá Canon á morgun!

 

Bruðlið í Skjálfandafljóti

The Aldeyjarfoss waterfall is situated in the north of Iceland at the northern part of the Sprengisandur Highland Road which means it is to be found within the Highlands of Iceland. One of the most interesting features of the waterfall is the contrast between the black basalt columns and the white waters of the fall. The river Skjálfandafljót drops here from a height of 20 m. The basalt belongs to a lava field called Frambruni or Suðurárhraun, hraun being the Icelandic designation for lava. Aldeyjarfoss er foss í Skjálfandafljóti í Bárðardal. Fossinn er umkringdur stuðlabergi sem er hluti af hraunþekjunni Frambruna eða Suðurárhrauni. Hvíti litur jökulfljótsins þykir mynda skemmtilega andstæðu við dökkt bergið. Fallið er um 20 metrar.

Alþingismaðurinn Tryggvi Þór Herbertsson lét þessi orð falla í ræðu sinni á eldhúsdagsumræðum: “…Erlendir fjárfestar eru fældir frá með tali um þjóðnýtingu. Á meðan renna vötnin til sjávar – óbeisluð, engum til gagns…”

magnað…

Tryggvi hefur rétt fyrir sér að mikil verðmæti felast í óbeisluðum stórfljótum Íslands.
Það er meira að segja tvöfaldur regnbogi við Aldeyjarfoss.

En ég er ekki sammála því að óbeisluð séu þau engum til gagns. Það liggur fyrir að ferðamannastraumur hingað til lands hefur aldrei verið meiri. Stærsti hluti ferðamanna tilgreinir náttúru landsins sem helsta aðdráttaraflið þegar ákvörðun var tekin að koma til Íslands. Ferðaþjónustan er nú mikilvægari póstur í landsframleiðslu en nokkru sinni fyrr. Þar erum við að tala um raunveruleg margföldunaráhrif og afleidd störf. Ekki tímabundin og einhæf störf sem tengjast ofur-innspýtingum líkt og við stóriðjuframkvæmdir.

Hversu stóran skell þarf að taka til að átta sig á því að stefnan var röng?
Hvenær hættum við að reikna út lífsgæði í Excel™?

 

Laugar að hausti

Þegar veðurspáin var svona góð eins og hún var fyrir síðustu helgi vissi ég að ég yrði að komast inn í Laugar. Ég ætlaði að tjalda, en þar sem það var laust í skála ferðafélagsins ákvað ég að gista frekar þar enda með börnin með mér. Við erum ágætlega græjuð en eigum þó ekki dúnpúka fyrir alla fjölskyldumeðlimi! Það er gaman að koma inn í laugar að hausti. Ferðamennirnir eru á bak og burt enda mesta ferðatímabilið liðið. Sumir forðast Landmannalaugar á sumrin sökum þess að þar er oft ansi þröngt á þingi. Þessa helgina var þó langt frá því fámennt. Bændur eru enn að ná í síðustu eftirlegukindurnar svo það var líf og fjör í skála FÍ.

Við fengum fallega birtu báða dagana, þó að ég hafi náð hlutfallslega fleiri góðum myndum á laugardeginum. Síðdegisbirtan er heit og falleg á þessum árstíma. Morgunbirtan blokkerast af Norðurbarminum svo sólarupprás nær ekki að sleikja Laugahraunið og Brennisteinsöldu líkt og á sumrin. Engu að síður gríðarlega fallegt að vera staddur í hlíðum Bláhnjúks við sólarupprás. Og líka auðveldara að leggja í göngu um sjö leytið frekar en fjögur eins og í sumar!

Á sunnudeginum dóluðum við okkur svo dómadalsleið heim á leið með viðkomu að Eskihlíðarvatni. Lífið er ljúft þegar maður á svona stundir með börnunum sínum. Það eru forréttindi að búa í landi eins og okkar. Vonandi höfum við vit á því að varðveita landið fyrir komandi kynslóðir í stað þess að fórna því fyrir næstu skyndilausn í efnahags- og atvinnumálum.

Út að leika

Suma daga verður maður bara að fara út að leika. Mánudagar eru sérstaklega góðir í það. Ekki síst ef maður þarf að prófa nýjan bíl. Ég er loksins kominn aftur á Land Rover Discovery. Það tók svolítinn tíma að landa þessum en það gekk fyrir rest. Fyrri eigandi hefur hugsað vel um hann og það leyndi sér ekki í dag. Hrikalega mjúkur og fínn, hleypti úr niður í 12 pund og þá fann maður varla fyrir stórgrýtinu.

Ég ákvað að taka smá hring sunnan við Skjaldbreið. Fór austan megin inn á Bláskógarheiðina, svo  meðfram Skjaldbreið að Hlöðufelli og suður Rótarsand niður á Laugarvatn. Það blés svolítið upp á Rótarsandi eins og sést á þessari mynd hér fyrir neðan. Fínn sandurinn minnti mig á það þegar ég var að mynda í öskufalli úr Eyjafjallajökli. Hugsanlega er hún eitthvað í bland þarna.

Smellti mér svo upp á Lyngdalsheiði og af henni aftur norður að Skjaldbreið. Hafði ekki farið þessa leið áður en hún er mjög falleg í kvöldsólinni, þar sem maður þræðir með fjöllunum. Þó að myndavélin hafi verið með í för tók ég nú fáar myndir. Þetta var meira svona ökuferð sko!

Sjötugur unglingur

Quon Chow ljósmyndar á Þingvöllum. ©2010 Christopher Lund.

Í starfi mínu kynnist ég oft skemmtilegu fólki. Quon Chow er einn af þeim. Hann réði mig sem ljósmynda-leiðsögumann í fjóra daga, eftir að hafa verið í heila viku með PhaseOne PODAS workshop genginu. Quon er fæddur í Kína, en er bæði Kanadískur og Bandarískur ríkisborgari. Hann hætti að vinna fyrir 10 árum og hefur síðan einbeitt sér alfarið að áhugamálinu sínu.

Ég ákvað að halda á norður því spáin sagði SA-átt. Auk þess var hann búinn að vera á suðurströndinni með PODAS, búinn að fara að Fjallabaki, Skaftafell og Jökulsárlón. Þau voru frekar óheppin með veður, þannig að það kom vel til greina að fara að Fjallabaki aftur. Síðustu helgi fór ég hins vegar ásamt Margréti Syðra-fjallabak í brjáluðu suðaustan roki, svo ég vissi að það var ekki alveg málið í ljósmyndaferð.

Strokkur að gjósa. ©2010 Christopher Lund.

Við fórum snemma af stað á mánudaginn var og héldum norður Kjöl. Komum við á Þingvöllum, Geysi og Gullfossi. Hinn gullni hringur var tekinn í eldsnöggan forrétt. Eftir það voru það Kerlingarfjöll, sem sviku ekki þrátt fyrir létta rigningu. Quon var svo hrifinn að hann ætlar að koma aftur til Íslands, nánast eingöngu til að eyða meiri tíma þar! Eftir Kerlingarfjöll var ekið nokkuð beint á Mývatn, en þar smellt ég upp tjaldinu góða á meðan hann kom sér fyrir á Hótel Reynihlíð.

Skrifstofan á Mývatni. ©2010 Christopher Lund.
Sólarupprás á Námafjalli. ©2010 Christopher Lund.

Það var ræs rétt rúmlega fimm daginn eftir og við komum okkur fyrir uppi á Námafjalli til að ná sólarupprás. Með í för slóst Steve Pelton, annar ljósmyndari sem hafði verið með PODAS hópnum og var kominn norður á eigin bílaleigubíl. Við fengum fjári góða birtu og mynduðum í góða tvo tíma áður haldið var í morgunmat á Hótelinu. Eftir það var bara slakað á fram eftir degi, en ég fór seinni partinn með Quon upp í Gjástykki og ók svo slóðann yfir að Þeistareykjum með viðkomu í Litla-víti. Engin leið að ná því almennilega á mynd, en mikið djöfull er magnað að sjá þessa risaholu í jörðinni þarna! Þeistareykir voru fallegir í kvöldbirtunni, en það eru ótrúlega miklar breytingar sem verða á fáeinum dögum. Ég var þarna fyrir þremur vikum og þá entist sólsetrið töluvert lengur.

Sólsetur á Þeistareykjum. ©2010 Christopher Lund.

Á miðvikudaginn héldum við svo áleiðis vestur á Snæfellsnesið, ljósmynduðum Dimmuborgir, Mývatn og Goðafoss á leiðinni og svo fengum við fallega birtu í Öxnadal líka. Komum kl 20 á Hótel Stykkihólm eftir nokkuð stífan keyrsludag, en ég var að veðja á þokkalega birtu síðasta daginn á Snæfellsnesinu. Samkv. veðurkortinu var spáð rigningu svo til um allt land, en síst þar.

Berserkjahraun. ©2010 Christopher Lund.

Berserkjahraunið klikkaði ekki og ekki spillti fyrir að sjá fjóra erni á flugi! Við notuðum daginn til að dóla allt Snæfellsnesið, veðrið fór reyndar versnandi en við náðum nokkrum skotum, t.d. við Djúpalón, Hellna og Búðir. Það var afar sáttur sjötugur unglingur sem kvaddi mig um kvöldmatarleytið á Hilton og ekki síður sáttur leiðsögumaður við stýrið á Lundanum.

Ég kem til með að gera meira af þessu, það er nokkuð ljóst!

Hraði

Háhraðalandslag. ©2008 Christopher Lund
Háhraðalandslag. ©2008 Christopher Lund

Það eru sennilega merki um að maður er farinn að eldast, en mér finnst tíminn líða of hratt (á gervihnattaröld). Ég þarf að hafa mig allan við að láta ekki verkefnin sem bíða trufla mig við verkefnin sem ég er að vinna við hverju sinni.

Verkefnalistinn er reyndar fullur af skemmtilegum viðfangsefnum. Það má kalla forréttindi. En samt sem áður er auðvelt að láta slík lúxusvandamál snúast upp í andhverfu sína og skapa streitu.

Að lifa í núinu er hægara sagt en gert. Trommuheilinn í mér er á sífelldu tímaflakki. Þegar ég næ að temja hann í augnablik gerast góðu hlutirnir.