Augnablik við Langasjó

Leikur ljóssins við Langasjó. ©2009 Christopher Lund
Leikur ljóssins við Langasjó. ©2009 Christopher Lund

Sumir dagar eru lengri en aðrir. Fjórir dagar á Hálendi Íslands gefa orku á við þriggja vikna frí.

Við vorum stödd á Ísafirði þegar við tókum ákvörðun um miðjan júlí að skella okkur í þessa ferð með Ástu. Ég var að skoða tölvupóstinn í fyrsta skipti í tvær vikur og þarna var skeyti frá Ástu um aukaferðina á Langasjó.

Uppgufun á Breiðbak. ©2009 Christopher Lund
Uppgufun á Breiðbak. ©2009 Christopher Lund

Ég var ekki lengi að sannfæra Margréti um að þetta væri tilvalin afmælisgjöf fyrir okkur, en það er bara vika á milli daganna okkar í ágúst. Ég sagði Andra og Möggu frá ferðinni og hvatti þau til að slást með í för. Það endaði þannig að við fórum saman í ferðina með elstu börnin okkar, þau Hlyn Snæ og Bjargey.

Morgunjóga á Skjaldmeyjartá við Streðvík. ©2009 Christopher Lund
Morgunjóga á Skjaldmeyjartá við Streðvík. ©2009 Christopher Lund

Það er alltaf lotterí að fara á fjöll. Veðrið er óútreiknanlegt og það finnst ekki öllum spennandi að liggja í tjaldi í 650m hæð yfir sjávarmáli, inn við jökul um miðjan ágúst. En þegar verðlaunin eru af þessum toga finnst mér það lítil áhætta að taka.

Margrét við Langasjó, Fögrufjöll í baksýn. ©2009 Christopher Lund
Margrét við Langasjó, Fögrufjöll í baksýn. ©2009 Christopher Lund

En það er ekki bara áfangastaðurinn sem skiptir máli í svona ferð. Fararstjórn vegur þungt og þar eru þær systur Ásta og Harpa ásamt matráðskonunni Brynhildi fremstar meðal jafningja. Við fórum með Augnabliki upp á Öræfin fyrir austan sumarið 2006. Því vissum við vel að hverju við gengum. Flæðið hjá þeim er magnað, allt rennur ljúflega áfram og hnökralaust. Jóga kvölds og morgna og andlegt nesti fyrir göngurnar gera ferðina að svo miklu meira en bara hálendisleiðangri.

Afmælisveisla við varðeld. ©2009 Christopher Lund
Afmælisveisla við varðeld. ©2009 Christopher Lund

Fyrir ljósmyndara að komast í tæri við fegurð eins og er að finna í nágrenni við Langasjó er auðvitað spennandi. Að fá svo alls konar birtuskilyrði á sama deginum er draumur. Og það er ekki ónýtt að fá afmælissöng við varðeld heldur.

Hér má svo skoða mun fleiri myndir frá þessari frábæru ferð:
Slideshow eða yfirlit.