The Father, Son and the Holy Goat

Hin heilaga linsu þrenning. Það eru til margar uppskriftir.

Nikon virðist ætla sér að einfalda málið þessa dagana með því að bjóða pakka með þremur nýjustu f/1.4 linsunum. Þeir hafa reyndar ekki komið með neina opinbera tilkynningu um þennan pakka. Það merkilega er að verðið er hagstæðara en að kaupa þær í sitt hvoru lagi! Það er auðvitað lógískt í almennum viðskiptum, en hingað til hefur það ekki beint verið stefnan í verðlagningu á ljósmyndadóti.

En þurfum við svona bjartar (og um leið dýrar) linsur? Það fer auðvitað eftir því hvers konar ljósmyndun við stundum og hvaða kröfur við gerum. Þessar þrjár dekka a.m.k. mjög skemmtilegt svið og skilar okkur nothæfum myndum við nánast hvaða birtuskilyrði sem er.

Elísabet 4 ára. Blásið á kertin. (Christopher Lund/©2010 Christopher Lund)

Hins vegar eru þessar f/1.4 linsur ekkert endilega svo mikið betri en aðrar þegar þær eru stoppaðar niður. Diffraction sést yfirleitt fyrr og því getur borgað sig að nota aðra linsur í þeim tilfellum þegar nota þarf ljósop f/8-11 eða smærra. Þess vegna myndi ég frekar fara af stað með AF-S Nikkor 24-70mm f/2.8G í gönguferð til að mynda landslag, heldur en að burðast með þrjár f/1.4 linsur sem ég væri sífellt að rífa af og setja á, með tilheyrandi möguleika á ryksöfnun á skynjara.

En ég viðurkenni að ég er sökker fyrir þessum björtum linsum. Ég ljósmynda gjarnan við skilyrði þar sem ég hef ekki tíma eða möguleika til þess að stýra lýsingu eða þá hver bakgrunnurinn er. Svona linsur er ómetanlegar í báðum tilfellum.

Ég hef nú þegar eignast nýju Nikkor AF-S 24mm f/1.4G og Nikkor AF-S 35mm f/1.4G. Ég er svo með demo eintak af Nikkor AF-S 85mm f/1.4G í láni um helgina frá Beco. Ég rá reyndar fyrir Nikkor AF 85mm f/1.4D sem er frábært gler, skarpt og fallegt, en sjálfvirki fókusinn mætti vera hraðvirkari. Við aðstæður þar sem viðfangsefnið er á hreyfingu á hún oft í erfiðleikum. Optíkst hélt ég að það væri tæpast hægt að toppa hana en nýja G-linsan gerir það. Og maður lifandi hvað AF-S fókusinn munar miklu, hraðvirkur og nákvæmur. Linsan skilar ennfremur svæðum sem eru út úr fókus (bokeh) afskaplega mjúkum og fallegum, eins og við mátti búast.

Canon á sínar frábæru: Canon EF 24mm f/1.4L II, Canon EF 35mm f/1.4L og Canon EF 85mm f/1.2L II. Ég átti þær allar um tíma, auk þess sem Canon EF 50mm f/1.2L og Canon EF 135mm f/2L voru gjarnan í töskunni. Allt frábær gler. En ef ég ætti að velja þrjár af þessum fimm held ég að ég myndi jafnvel frekar stilla upp 35mm – 50mm og svo 135mm. Canon EF 135mm f/2L er líklega ein allra bestu linsukaup sem ég hef gert. Æðisleg linsa í alla staði, fáranlega fljót að fókusera og skerpa/bokeh yndislegt. Hér er dæmi:

Arndís úti við bústaðinn við Meðalfellsvatn. (Christopher Lund/©2008 Christopher Lund)

Ziess linsurnar fyrir Nikon og Canon D-SLR eru möguleiki líka, sætti maður sig við að missa sjálfvirka fókusinn. Þessar linsur hafa selst mjög vel upp á síðkastið, ekki síst eftir mikla uppfjöllun og lof á ljósmyndakeppni.is. Ég hef nú ekki prófað að setja annað en Distagon T* 2,8/21 ZF og Distagon T* 2/35 ZF á mínar vélar og þær eru a.m.k. á pari við það besta frá Nikon varðandi skerpu og bjögun. Mig langar svolítið að prófa Planar T* 1,4/50 ZF til að bera saman við Nikkor AF-S 50mm f/1.4G sem er eiginlega veikasti hlekkurinn núna í föstu Nikkor f/1.4G línunni. Hún er samt ekkert drasl. Þessi mynd er tekin á hana á f/2 og 1/250s á Nikon D3x @ ISO 6400.

Volcanic eruption in Eyjafjallajökull, 19th of April 2010. On 14th of April 2010 Eyjafjallajökull resumed erupting after a brief pause, this time from the top crater in the centre of the glacier, causing meltwater floods (also known as jökulhlaup) to rush down the nearby rivers, and requiring 800 people to be evacuated. This eruption was explosive in nature and is estimated to be ten to twenty times larger than the previous one in Fimmvörðuháls. This second eruption threw volcanic ash several kilometres up in the atmosphere which led to air travel disruption in northwest Europe for six days from 15 April 2010, including the closure of airspace over most of Europe. (Christopher Lund/©2010 Christopher Lund)

Eitt er víst. Ef maður eyðir svona miklum tíma og peningum í þennan nördaskap er eins gott að koma annað slagið í hús með ljósmyndir sem eru annað en bara skerputest!

Gleðilegt linsutest

AF-S Nikkor 70-200mm f/2.8G VR II

Ég fékk nýju AF-S Nikkor 70-200mm f/2.8G ED VR II linsuna lánaða hjá Beco núna rétt fyrir áramótin. Eftir að hafa lesið eintómt lof um hana á Netinu var ljóst að ég varð að fá að prufa. Fyrir er ég með AF-S Nikkor 80-200mm f/2.8 D EF-IF sem sumum finnst jafnvel betri en fyrsta kynslóðin af 70-200mm VR. Það sem ég hef helst geta fundið að henni er nokkuð hressilegt vignette á stærsta opi og svo er fóturinn (til að festa hana á þrífót) frekar glataður. Hún er hins vegar mjög fljót að fókusera, liggur þægilega í hönd og er eiturskörp. Mætti þó vera skarpari á stærsta opi. Hún er alls ekki slæm en maður sér strax mun við að fara í ljósop 4.

Eftir skamma notkun á þeirri nýju fann ég strax að VRII hristivörnin var að standa undir nafni. Hingað til hef ég ekki náð mörgum skörpum myndum á 200mm undir 1/30s – við notkun á linsu með hristivörn. En hér var ég að ná skotum niður í 1/3s eins og sjá má að þessari mynd.

Hér er svo 100% crop, þetta er skotið á Nikon D3s á ISO 200, myndin unnin í Lightroom, ekki bætt við neinni skerpun þar.

100% crop

Mér finnst þessi linsa sérstaklega falleg varðandi bokeh. Minnir mig einna helst á AF Nikkor 85mm f/1.4D. Hún liggur vel í hönd, þyngdardreifining mjög góð miðað við D3 hús. Fókushraðinn er frábær og nákvæmnin góð, ekkert að kvarta yfir í þeirri deild.

Vingette er betur höndlað á stærsta opi miðað við eldri linsuna, en vignette er vissulega til staðar líkt og búast má við í þessum björtu zoom-linsum. Það fer mikið eftir myndefni hversu mikið maður verður var við þetta. Þegar ég var á röltinu (í 11 stiga frosti!) flaug þessi vél yfir mig. Svona myndefni er stærsti óvinur zoom lisnunnar. Eins og þið sjáið er vignette áberandi á öllum ljósopum.  Fyrsta mynd skotin á f/2.8, næsta á f/4, þriðja á f/5.6, og sú fjórða á f/8. Smellið á þessar litlu til að sjá í fullri stærð.

Eins og ég sagði áðan fer mjög eftir myndefninu hversu mikið vandamál svona vignette er. Mér hefur stundum fundist fyndið að fylgjast með umræðum á spjallvefjum þar sem notendur eiga ekki orð yfir hversu mikið vignette sé til staðar í dýrum linsum – á sama tíma og flestir þeirra búa til post crop vignette á næstum allar myndir hvort eð er. Það verður þó að segjast að í studio sem dæmi er svona vignette oft ansi þreytandi. Ef ég væri að ljósmynda í studio þar sem bakgrunnurinn þyrfti að vera jafn þá væri AF Nikkor 85mm f/1.4D betri kostur.

Það sem kitlar mig mest við þessa linsu er VR hristivörnin. Hún opnar alveg nýja möguleika að mínu mati. Sumir vilja meina að hristivörnin sé ofmetin, það skipti meira máli að fá bjartari linsu því þá er hægt að frysta hreyfingu. Maður hafi lítið við það að gera að ljósmynda fólk á hægari lokararhraða en 1/60s sem dæmi. Ég er ekki sammála því. Tökum brúðkaupsathöfn sem dæmi. Þar eru tækifæri til að ná myndum með þessari linsu sem erfitt er að ná annars. Þar er ekki mikil hreyfing á fólki og oftast frekar erfið birtuskilyrði. Í svoleiðis aðstæðum er þessi linsa hverrar krónu virði.

Talandi um krónur. Maður þarf að eiga nokkrar fyrir þennan grip. Verðið slagar hátt í hálfa milljón. Mikið andsk.. var mikið meira gaman að vera með græjulostann árið 2007!

Nýja linsan rokkar

Arndís plokkar rafmagnsgítarinn. ©2009 Christopher Lund.

Fyrir rúmum mánuði eignaðist ég nýju 24mm f/1.4L II linsuna frá Canon. Var lengi búin að langa í þessa brennivídd í þessari föstu og hröðu L-línu. Ég prófaði fyrstu kynslóð af henni og þótt hún sé góð þá fannst mér hún vera nokkuð lakari en t.d. 35mm f/1.4L sem ég á líka og er ein af mínum uppáhalds linsum.

Á þessum mánuði hef ég notað linsuna töluvert það er skemst frá því að segja að hún stendur undir væntingum og vel það. Teikningin í henni er falleg, bjögun furðu lítil og bakgrunns-blurið dásamlegt.

Stoppuð niður í f/2.0 eins og á þessari mynd af Arndísi er hún snilld, nær fram öllum smáatriðum og þolir mótljósið vel. Það eru ekki notuð nein ljós við tökuna, hér er eingöngu um dagsljós frá gluggum að ræða. Skotið á 5D Mark II á ISO 800, f/2.0 og 1/80s. Dýptarskerpan er að sjálfsögðu ekki mikil, en það er jú með ráðum gert.

100% crop frá sömu mynd.
100% crop frá sömu mynd.

Það er því óhætt að mæla með þessu gæðagleri, ef ykkur vantar gleiðhornalinsu sem hægt er að nota í mjög döpru ljósi og/eða til að einangra viðfangsefnið frá bakgrunninum.

Myndir ársins og nýjar TS-E frá Canon

Myndir ársins 2008 opnar í­ Gerðarsafni í­ dag kl. 15.00. Vert er að taka það fram að frítt er á sýninguna eins og áður. Hún er alltaf vel sótt, Golli sagði mér í gær að hún væri árlega mest sótta sýning Gerðarsafns. Það kemur ekki á óvart. Þessi ljósmyndasýning er baksýnisspegill þjóðarinnar.

Um að gera að skella sér og mingla við kollegana. Reyndar er frekar vonlaust að skoða sýninguna vel í dag út af mannfjöldanum. Fyrir mitt leyti kemur það ekki að sök. Ég prentaði sýninguna og er því líkast til búinn að skoða hana manna best.


Háskólatorg. Canon EOS 1Ds Mark III, TS-E 24mm f/3.5L

Ég er farinn að verða spenntur fyrir komu nýju Tilt/shift linsanna fá Canon. Sjálfur á ég 24mm og 90mm TS-E sem ég nota mikið. 90mm linsan er skörp og fín, en 24mm linsan mætti vera skarpari, sérstaklega út í hornin. Ég var búinn að spá því að Canon myndi uppfæra víðustu TS-E linsuna, en átti ekki von á því að þeir kæmu með nýja enn víðari.


Sléttuvegur. Canon EOS 1Ds Mark III, TS-E 24mm f/3.5L

Ég reikna fastlega með að uppfæra 24mm TS-E linsuna mína, en er ekki viss um að ég tími að splæsa í þessa 17mm. Það er ekki bara óhagstætt gengi sem spilar inn í þá ákvörðun.

Persónulega finnst mér þessar ultra-víðu linsur ekki eins skemmtilegar. Ég á 16-35mm f/2.8L II sem ég nota m.a. í interior arkitektúr. Mér leiðist hins vegar þegar ég þarf að nota hana mikið á víðasta endanum. Bjögunin er svo svakaleg að ég upplifi mig sem argasta lygalaup þegar myndir af 20fm rými eru farnar líta út eins og 100fm salakynni! Hins vegar veit ég svo sem um hús sem hægt væri að gera mjög skemmtilega hluti með svona 17mm TS-E. Þannig að maður á aldrei að segja aldrei.

Annars ég bara góður. Bísnessinn er nokkuð þéttur, þrátt fyrir allt. Maður kvartar ekki á meðan.