Útilega tvö

Ari Carl og Logi á tjaldstæðinu við Leirubakka. ©2009 Christopher Lund.
Ari Carl og Logi á tjaldstæðinu við Leirubakka. ©2009 Christopher Lund.

Um síðustu helgi fórum við í aðra útilegu sumarsins. Það var þétt umferðin út úr bænum enda frábær spá fyrir helgina. Í Kömbunum skapaðist halarófa sem náði alla leið að Hveragerði. Hringtorgin sem búið er að innleiða svo víða eru ágæt þangað til að umferðin er orðin þung, þá skapa þau flöskuhálsa. En við vorum svo sem ekkert að pirra okkur á því enda vorum við ekki að fara svo langt.

Ferðinni var heitið í Galtalæk. Þar var hins vegar algjörlega ólíft fyrir flugu. Mývatn er bara barnaskapur miðað við þetta! Svolítil synd, því tjaldstæðið í Galtalækjarskógi er með þeim fallegustu á landinu. Við fórum tilbaka að Leirubakka þar sem flugan var ekki eins rosaleg. Við smelltum upp tjaldvögnunum þar á fínum stað ásamt tengdó og skömmu síðar komu vinir okkar Árni og Hildur ásamt börnum.

Landmannalaugar. ©2009 Christopher Lund.
Landmannalaugar. ©2009 Christopher Lund.

Á laugardeginum fórum við inn í Landmannalaugar í blíðskaparveðri. Þar var margt um manninn eins og við má búast á þessum árstíma. Helst eru það þó útlendingar sem tjalda í Landmannalaugum. Æ fleiri Íslendingar í “útilegu” eru háðir rafmagni og öðrum lúxus og því sér maður ekki marga landa sína tjalda þar. Svo er auðvitað ekkert grín að hossast með fellihýsi og hvað þá hjólhýsi á hálendisvegunum!

Brennisteinsalda. ©2009 Christopher Lund.
Brennisteinsalda. ©2009 Christopher Lund.
Ari Carl tekur mynd af Bjargey í Landmannalaugum. ©2009 Christopher Lund.
Ari Carl tekur mynd af Bjargey í Landmannalaugum. ©2009 Christopher Lund.

Við tókum gönguhringinn góða, gengum með Grænagili upp að Brennisteinsöldu og svo niður fram hjá Vondugiljum niður að Laugum. Þetta er auðveld ganga fyrir jafnt börn sem fullorðna. Það er ljóst að við hjónin þurfum að koma aftur seinna í sumar eða haust til þess að eyða helgi við að ganga á þessu svæði, þvílíkur ævintýraheimur!

Arndís með vatnsbyssu í Landmannalaugum. ©2009 Christopher Lund.
Arndís með vatnsbyssu í Landmannalaugum. ©2009 Christopher Lund.
Ljótipollur. ©2009 Christopher Lund.
Ljótipollur. ©2009 Christopher Lund.

Eftir vel heppnaða göngu var ákveðið að grilla og snæða kvöldmat áður en við héldum tilbaka á Leirubakka. Á heimleiðinni fórum við upp að Ljótapolli sem er alltaf gaman, sérstaklega í fallegri kvöldsól. Til að breyta til tókum við Hrauneyjaveginn tilbaka. Hann er sínu leiðinlegri yfirferðar en Landmannaleiðin um Dómadal.

Hoppað útí sundlaug. ©2009 Christopher Lund.
Hoppað útí sundlaug. ©2009 Christopher Lund.

Á sunnudeginum skelltum við okkur í sund í Laugaland. Þar gafst tækifæri til að prófa nýju myndavélina sem ég hafði verslað fyrir ferðina. Þessi er tilvalin fyrir krakkana í sumarfríið.

Eftir sundferðina fóru Hildur og Árni að búa sig til heimferðar en við ætluðum að vera eina nótt í viðbót. Fórum seinnipartinn að skoða tvo áhugaverða staði í nágrenninu, en þá fundum við í bókinni hans Páls Ásgeirs – 101 Ísland – sem ég minntist á um daginn.

Ari skoðar Hellnahellir. ©2009 Christopher Lund.

Fyrst var það stærsti manngerði hellir á landinu; Hellnahellir eða Fjóshlöðuhellir. Hann er grafinn í sandstein og er í heild sinni um 50m langur og um 200 fermetrar að flatarmáli. Margir telja að Papar hafi grafið hellinn fyrir landnám. Víða í hellum á Suðurlandi finnast ristur og krossmörk í hellisveggjum líkt og í þessum. Það er óhætt að mæla með heimsókn í Hellnahelli.

Landréttir í Réttarnesi. ©2009 Christopher Lund.
Landréttir í Réttarnesi. ©2009 Christopher Lund.

Því næst ókum við að Landréttum Í Réttarnesi. Þær eru ekki alveg í alfaraleið, en bókin góða vísaði okkur veginn örugglega. Réttir þessar eru hlaðnar úr grjóti og þar var réttað frá 1660 til 1979. Mjög gaman að koma þarna og skoða þessar fallegu réttir, sem eru svo snilldarlega staðsettar í landinu.

Á veginum inn í Hrafntinnusker. ©2009 Christopher Lund.
Á veginum inn í Hrafntinnusker. ©2009 Christopher Lund.

Á mánudeginum var planið að fara inn í Hrafntinnusker. Það er þó hægara sagt en gert að komast þangað nema á mjög vel búnum jeppum. Við komumst áleiðis á okkar ástkæra Pajero, upp í ca. 1000m hæð, en þar ákvaðum við að stoppa frekar en að festa okkur í snjó. Hringdum í tengdó þegar við vorum komin upp brekkuna til að tékka á þeim. Þau höfðu þá komist í ógöngur þegar þau þurfu að bakka í brattri brekkunni og misst bílinn út af slóðanum. Við héldum því strax tilbaka til bjargar. En áður en ég náði til þeirra var kominn hjálpfús jeppamaður sem á vel búnum bíl sínum kippti þeim upp úr þessu.

Tengdó bjargað úr ógöngum. ©2009 Christopher Lund.
Tengdó bjargað úr ógöngum. ©2009 Christopher Lund.

Við ákvaðum að geyma Hrafntinnusker og fara frekar inn að Landmannahelli og freista þess að renna fyrir fisk. Við Landmannahelli er hægt að kaupa veiðileyfi. Við ákvaðum að prófa Löðmundavatnið frekar en að aka tilbaka að Frostastaðavatni, þó að þar sé meiri veiðivon og meira um stærri fisk.

Við Löðmundarvatn. ©2009 Christopher Lund.
Við Löðmundarvatn. ©2009 Christopher Lund.

Krakkarnir skemmtu sér vel við að veiða, en Arndís var þó þrjóskust við þessa iðju. Í tvígang elti fiskurinn færið alveg upp að landi svo hún var staðráðinn í því að ná í fisk. En hún varð þó að játa sig sigraða að lokum.

Arndís veiðir í Löðmundaravatni. ©2009 Christopher Lund.
Arndís veiðir í Löðmundaravatni. ©2009 Christopher Lund.

Við ókum svo í rólegheitum tilbaka Landmannaleiðina í fallegri kvöldsól. Það var töluvert mistur og svolítið ævintýranleg birta. Skemmtilegri útileguhelgi var nú senn lokið.

Jógaferðamenn á Landmannaleið. ©2009 Christopher Lund.
Jógaferðamenn á Landmannaleið. ©2009 Christopher Lund.
Lost in Iceland rip-off. ©2009 Christoher Lund.
Lost in Iceland rip-off. ©2009 Christoher Lund.

Eftir viku verðum við svo öll komin í sumarfrí og þá er stefnan sett m.a. á Vestfirði. Svo langar okkur að fara norður og helst alla leið úr á Langanes. Get ekki beðið…

Nýja linsan rokkar

Arndís plokkar rafmagnsgítarinn. ©2009 Christopher Lund.

Fyrir rúmum mánuði eignaðist ég nýju 24mm f/1.4L II linsuna frá Canon. Var lengi búin að langa í þessa brennivídd í þessari föstu og hröðu L-línu. Ég prófaði fyrstu kynslóð af henni og þótt hún sé góð þá fannst mér hún vera nokkuð lakari en t.d. 35mm f/1.4L sem ég á líka og er ein af mínum uppáhalds linsum.

Á þessum mánuði hef ég notað linsuna töluvert það er skemst frá því að segja að hún stendur undir væntingum og vel það. Teikningin í henni er falleg, bjögun furðu lítil og bakgrunns-blurið dásamlegt.

Stoppuð niður í f/2.0 eins og á þessari mynd af Arndísi er hún snilld, nær fram öllum smáatriðum og þolir mótljósið vel. Það eru ekki notuð nein ljós við tökuna, hér er eingöngu um dagsljós frá gluggum að ræða. Skotið á 5D Mark II á ISO 800, f/2.0 og 1/80s. Dýptarskerpan er að sjálfsögðu ekki mikil, en það er jú með ráðum gert.

100% crop frá sömu mynd.
100% crop frá sömu mynd.

Það er því óhætt að mæla með þessu gæðagleri, ef ykkur vantar gleiðhornalinsu sem hægt er að nota í mjög döpru ljósi og/eða til að einangra viðfangsefnið frá bakgrunninum.

Flatey 2006 remastered

Sólbaðaður stigi í Flatey. ©2006 Christopher Lund
Sólbaðaður stigi í Flatey. ©2006 Christopher Lund

Það er í senn blessun og bölvun að tækninni fleygi fram eins hratt og raun ber vitni. Þegar maður ljósmyndar stafrænt í RAW skráarsniði er endalaust hægt að vinna myndir upp á nýtt. Þegar hugbúnaðurinn þróast og býður upp á nýjar úrvinnsluaðferðir er freistandi að endurvinna myndir sem manni þykir vænt um. Ég var í þessu í dag þegar ég ákvað að fara í gegnum myndir frá Flatey teknar vorið 2006.

Þorpið í Flatey. ©2006 Christopher Lund
Þorpið í Flatey. ©2006 Christopher Lund

Ég var nú reyndar ekki búinn að fullvinna þær allar í upphafi. Það er nú meira reglan en undantekningin hjá mér í þessum prívat verkefnum. Ég er t.d. núna að gera átak í að koma Flateyjarmyndum almennilega í hús. Sagði ykkur frá því um daginn að 2004 árgangurinn hafði ekki einu sinni farið í skönnun. Ég er með það og árgang 2008 í vinnslu hér heima á kvöldin. Þetta er filmustöff sem tekur óneitanlega lengri tíma að vinna úr. Samt svooo gaman að skjóta á filmuna inn á milli.

Spur Cola flaska í glugganum í skemmunni hans GPÓ. ©2006 Christopher Lund
Spur Cola í skemmunni hans GPÓ. ©2006 Christopher Lund

En alla vega… þeir sem vilja endurskoða Flateyjarmyndirnar frá 2006 geta gert það hér.

Hraði

Háhraðalandslag. ©2008 Christopher Lund
Háhraðalandslag. ©2008 Christopher Lund

Það eru sennilega merki um að maður er farinn að eldast, en mér finnst tíminn líða of hratt (á gervihnattaröld). Ég þarf að hafa mig allan við að láta ekki verkefnin sem bíða trufla mig við verkefnin sem ég er að vinna við hverju sinni.

Verkefnalistinn er reyndar fullur af skemmtilegum viðfangsefnum. Það má kalla forréttindi. En samt sem áður er auðvelt að láta slík lúxusvandamál snúast upp í andhverfu sína og skapa streitu.

Að lifa í núinu er hægara sagt en gert. Trommuheilinn í mér er á sífelldu tímaflakki. Þegar ég næ að temja hann í augnablik gerast góðu hlutirnir.

Tveggja stafa

Arndís Lund. ©2009 Christopher Lund

Það er naumast hvað eitt ár getur liðið fljótt! Finnst eins og það séu nokkrir mánuðir en ekki heilt ár síðan ég skrifaði þetta.

Nú er sem sagt áratugur síðan þessi skvísa kom í heiminn. Við feðginin fórum í gær og versluðum nýja línuskauta í afmælisgjöf frá okkur foreldrunum. Fínir skautar á góðu verði í Markinu. Svo fékk hún í morgun sundgleraugu og hárbursta frá systkinum sínum ásamt e-h föndur-skvísu-dóti sem er nauðsynlegt hverri 10 ára stúlku.

Systkinaknús. ©2009 Christopher Lund
Systkinaknús. ©2009 Christopher Lund

Í tilefni dagsins er hér smá vídeóstubbur af þeim systrum. Þetta er tekið fyrir 6-7 árum. Þarna má heyra færeyska hreiminn sem Arndís var með. Systurnar áttu annars að taka til í herberginu sínu og það gekk frekar hægt. Ég tók því til minna ráða og hótaði þeim – eins og sannir gæðaforeldrar gera!

Nemendasýning JSB

cld090324_068_jazz_dance
Bjargey á Nemendasýningu JSB 2009

Nemandasýning JSB í kvöld. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 70-200mm f/2.8L IS

Það var stolltur faðir sem tók þessa mynd í kvöld. “Litla” stelpan mín stóð sig frábærlega, eins og þær allar sem dönsuðu fyrir okkur í kvöld. Það kemur ykkur kannski ekki á óvart, en ég ljósmynda þessar sýningar alltaf nokkuð ítarlega. Mér finnst ekki síður gaman að mynda undirbúninginn og reyna að búa til litla myndasögu. Afraksturinn má skoða hér.

í lífsins ólgusjó


Dísan í spænsku brimi. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 50mm f/1.2L

Þessi mynd lýsir líðan fjölda Íslendinga sem nú eru staddir í lífsins ólgusjó. Nei, bara grín. Fannst þetta bara sniðug mynd af henni móður minni.

Ég notaði annars kvöldið til þess að vinna nokkrar myndir frá ferðinni okkar til Spánar nú í september. Þær má skoða hér. Svo er hér ein frá Ronda sem er samsett úr einum 8 myndum eða svo. Skellti henni því líka inn sem zoomify mynd hér.

Guð blessi ykkur (og bankana).

Skin og skúrir í Flatey

Flatey
Flatey í lok maí 2008. Hasselblad 503CW, Planar 150mm f/4, Fuji Reala.

Ég ákvað að skella inn tveimur myndum frá Flatey. Bara svona til að sýna fram á það að ég er á lífi og er byrjaður að vinna úr myndunum. Það er óneitanlega meira haft fyrir því að skjóta á filmuna, svo ekki sé minnst á kostnaðinn. Ég fór líklegast með um 30-40 þúsund í filmur og framköllun, og var alls ekki svo grimmur að skjóta (tók 18 filmur 120mm og fjórar 35mm).

Það var gaman að sjá svipinn á börnunum þegar ég mundaði bladdarann. Mörg þeirra virtust varla trúa því að um myndavél væri að ræða. Sérstaklega þegar þau gátu ekki skoðað myndirnar á skjánum!

Sunna við poll
Sunna að vaða í polli. Hasselblad 503CW, Distagon 50mm f/4, Fuji NHG

Það fylgir því e-h sælustraumur að mynda með þessum gæðagripum. Þetta ferningslaga format hefur heillað mig alveg frá því að ég var smá púki og lá yfir svart/hvítu kontöktunum hans pabba hér í denn. En það er líka e-h óútskýranlegur galdur við það að horfa svna ofan í vélina á speglaðan veruleikann (ég nota yfirleitt ekki prisma) og ramma myndefnið inn þannig.

En þetta verður víst að duga í bili… meira seinna…

Kári og kreppan


Kári Stefánsson. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 85mm f/1.2L II.

Ég ljósmyndaði svolítið fyrir DeCODE um daginn í tengslum við ársskýrsluna þeirra. Það var skemmtilegt verkefni og áhugavert. Ég hafði ekki áður komið í höfuðstöðvarnar, en aðstaðan til rannsókna á þessu sviði er sögð vera ein sú besta í heiminum. Fá fyritæki hafa verið jafn mikið í umræðunni undanfarin ár eins og DeCODE. Margir urðu ríkir þegar uppgangurinn var sem mestur á árdögum þess – og ófáir urðu svekktir þegar þeir komu of seint til leiks og uppskáru kannski lítið annað en skell.

En svona er lífið og fjármálamarkaðurinn auðvitað líka. Mér finnst kostulegt þegar fólk tekur því sem persónulegri móðgun þegar efnhagslífið tekur dífur. Enn kostulegra finnst mér að fólk tali um kreppu nú á dögum. Kreppa er þegar fólk líður virkilegan skort og þarf að skipuleggja hver einustu fjárútlát. Auðvitað er til fólk hér á landi sem býr við bág kjör, en þorri almennings lifir eins og blóm í eggi – kaupir sína flatskjá, hjólhýsi og fjórhjól. Mín kynslóð hefur aldrei liðið skort og hefur almennt frekar lítið þurft að hafa fyrir hlutunum. Að fara að væla núna, vegna þess að ekki er lengur hægt að fá 90-100% lán fyrir öllu mögulegu er barnalegt.

Við þurfum að gera eins og DeCODE. Horfast í augu við raunveruleikann, skera niður og halda svo ótrauð áfram. Ég meina – sýnist ykkur gaurinn hér að ofan líta út fyrir að leggja árar í bát þegar á móti blæs?