Gleðilegt linsutest

AF-S Nikkor 70-200mm f/2.8G VR II

Ég fékk nýju AF-S Nikkor 70-200mm f/2.8G ED VR II linsuna lánaða hjá Beco núna rétt fyrir áramótin. Eftir að hafa lesið eintómt lof um hana á Netinu var ljóst að ég varð að fá að prufa. Fyrir er ég með AF-S Nikkor 80-200mm f/2.8 D EF-IF sem sumum finnst jafnvel betri en fyrsta kynslóðin af 70-200mm VR. Það sem ég hef helst geta fundið að henni er nokkuð hressilegt vignette á stærsta opi og svo er fóturinn (til að festa hana á þrífót) frekar glataður. Hún er hins vegar mjög fljót að fókusera, liggur þægilega í hönd og er eiturskörp. Mætti þó vera skarpari á stærsta opi. Hún er alls ekki slæm en maður sér strax mun við að fara í ljósop 4.

Eftir skamma notkun á þeirri nýju fann ég strax að VRII hristivörnin var að standa undir nafni. Hingað til hef ég ekki náð mörgum skörpum myndum á 200mm undir 1/30s – við notkun á linsu með hristivörn. En hér var ég að ná skotum niður í 1/3s eins og sjá má að þessari mynd.

Hér er svo 100% crop, þetta er skotið á Nikon D3s á ISO 200, myndin unnin í Lightroom, ekki bætt við neinni skerpun þar.

100% crop

Mér finnst þessi linsa sérstaklega falleg varðandi bokeh. Minnir mig einna helst á AF Nikkor 85mm f/1.4D. Hún liggur vel í hönd, þyngdardreifining mjög góð miðað við D3 hús. Fókushraðinn er frábær og nákvæmnin góð, ekkert að kvarta yfir í þeirri deild.

Vingette er betur höndlað á stærsta opi miðað við eldri linsuna, en vignette er vissulega til staðar líkt og búast má við í þessum björtu zoom-linsum. Það fer mikið eftir myndefni hversu mikið maður verður var við þetta. Þegar ég var á röltinu (í 11 stiga frosti!) flaug þessi vél yfir mig. Svona myndefni er stærsti óvinur zoom lisnunnar. Eins og þið sjáið er vignette áberandi á öllum ljósopum.  Fyrsta mynd skotin á f/2.8, næsta á f/4, þriðja á f/5.6, og sú fjórða á f/8. Smellið á þessar litlu til að sjá í fullri stærð.

Eins og ég sagði áðan fer mjög eftir myndefninu hversu mikið vandamál svona vignette er. Mér hefur stundum fundist fyndið að fylgjast með umræðum á spjallvefjum þar sem notendur eiga ekki orð yfir hversu mikið vignette sé til staðar í dýrum linsum – á sama tíma og flestir þeirra búa til post crop vignette á næstum allar myndir hvort eð er. Það verður þó að segjast að í studio sem dæmi er svona vignette oft ansi þreytandi. Ef ég væri að ljósmynda í studio þar sem bakgrunnurinn þyrfti að vera jafn þá væri AF Nikkor 85mm f/1.4D betri kostur.

Það sem kitlar mig mest við þessa linsu er VR hristivörnin. Hún opnar alveg nýja möguleika að mínu mati. Sumir vilja meina að hristivörnin sé ofmetin, það skipti meira máli að fá bjartari linsu því þá er hægt að frysta hreyfingu. Maður hafi lítið við það að gera að ljósmynda fólk á hægari lokararhraða en 1/60s sem dæmi. Ég er ekki sammála því. Tökum brúðkaupsathöfn sem dæmi. Þar eru tækifæri til að ná myndum með þessari linsu sem erfitt er að ná annars. Þar er ekki mikil hreyfing á fólki og oftast frekar erfið birtuskilyrði. Í svoleiðis aðstæðum er þessi linsa hverrar krónu virði.

Talandi um krónur. Maður þarf að eiga nokkrar fyrir þennan grip. Verðið slagar hátt í hálfa milljón. Mikið andsk.. var mikið meira gaman að vera með græjulostann árið 2007!