Dótadagur Nikon Expo

Lagt af stað í dótadag með Nikon. ©2009 Christopher Lund.

Það er óhætt að segja að Nikon kynningin sem haldin var á Hótel Sögu í vikunni sé með metnaðarfyllri vörukynningum hér á landi á sviði ljósmyndunar. Það komu bæði sérfræðingar og markaðsmenn frá Nikon í Svíðþjóð – og nóg af dóti! Reyndar var bara ein Nikon D3s vél með í för, sem skýrist af því að vélin er ekki enn kominn á markað. Við fengum að prófa hana, en ekki var leyfilegt að taka með skrár heim á minniskorti. Skiljanlegt – þar sem framleiðendur eru að fínstilla þessar græjur fram á síðasta dag.

Benni þungt hugsi í rútunni. ©2009 Christopher Lund.
Benni þungt hugsi í rútunni. ©2009 Christopher Lund.

Daginn eftir kynninguna á Sögu var nokkrum ljósmyndurum boðið í ferðalag um Reykjanesið. Ferðin byrjaði í Beco þar sem við blöstu fjórar stærstu Pelican kistur sem ég hef séð, fullar af Nikon D3, D3x og svo gott sem öll Nikkor linsulínan líka. Hver ljósmyndari fékk D3 í hönd og valdi sér linsu og svo var nóg af þeim til skiptana í ferðinni. Ég prófaði í fyrsta skipti 400mm, 500mm og 600mm linsurnar sem eru náttúrulega bara bull. Nikkor 14-24mm er líka ótrúlega skörp og krómatísk bjögun í algjöru lágmarki. Hér voru menn hvattir til að taka myndirnar með sér heim á sínum minniskortum.

Eddi að brotna undan Nikon álaginu. ©2009 Christopher Lund.
Eddi að brotna undan Nikon álaginu. ©2009 Christopher Lund.

Það var skondið að sjá alla þessa Canon menn reyna að venjast hinu öfuga Nikon lífi, en flest skrunhljól virka öfugt miðað við Canon og zoomið á linsum er líka í öfuga átt (eða rétta átt samkv. Nikon auðvitað). Það er hægt að snúa virkni skrunhjóla í D3 vélinni og það einfaldaði lífið fyrir suma. Þetta var auðveldara fyrir mig þar sem ég hef verið að leika mér með D3x vélina hans pabba, en við feðgar höfum átt Canon og Nikon kit samhliða frá 2001. Ég hef því alltaf haft aðgang að báðum kerfum og notað í gegnum árin, þó hef ég verið meiri Canon maður síðustu ár.

Krisitnn verður að fá að vera í svart/hvítu (tekið með 85 Tilt/shift). ©2009 Christopher Lund.

Nú eru margir að spyrja mig hvort ég ætli að skipta yfir? Sko – mér finnst bæði betra. Bæði merkin hafa sína kosti og galla. En ég hugsa að ég selji hluta af Canon dótinu til að geta bætt við Nikon dótið. Ég held a.m.k. eftir Mark II fimmunni og föstu L-glerjunum + tilt/shift.

_DSC0103

En í lok dagsins eru þetta auðvitað bara verkfæri. Myndirnar sem við sköpum ráðast fyrst og fremst af ástríðunni sem við berum í brjósti fyrir ljósmyndun. Tækin eru bara framlenging á huganum svo að segja. Ef við náum að vekja tilfinningar með myndunum erum við á réttri leið. Ef það eina sem er áhugavert að skoða er skerpa eða bjögun er myndin líkast til slöpp.

500mm f/4 var alveg í lagi (takið eftir fuglinum í öldunni). ©2009 Christopher Lund.
500mm f/4 var alveg í lagi (takið eftir fuglinum í öldunni). ©2009 Christopher Lund.

Kreisý

d3front-001.gifAllt brjálað. Nikon kynnir D3, fyrstu full-frame vélina frá Nikon. Samt “bara” 12 milljón pixlar. Engu að síður frekar öflug vél ef maður skoðar nánar. Nýr CMOS skynjari sem á víst að vera svo gott sem laus við “noise” eða suð. Ljósnæmni frá ISO 200-6400 ásamt sérstakri low stillingu (ISO 100) og svo tveimur high stillingum sem þýðir allt að ISO 25600 (nei þetta er ekki prentvilla). Það er ljóst að þessi vél kemur til með að velgja Canon EOS 1D Mark III undir uggum. Nikon á þó enn eftir að koma með svar við 1Ds MII. Eitthvað slúður hefur heyrst að 15-16 milljón pixla Nikon D3x muni ekki vera allt of langt undan, en það kemur í ljós hvað er til í því.

En allur þessur fókus á megapixlana skiptir minna máli en fólk heldur. Tökum Canon EOS 5D sem dæmi. Ríflega 12.5 milljón pixlar á 24x36mm skynjara. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá get ég varla séð neinn alvöru mun á því að skjóta með henni á móti Canon EOS 1Ds Mark II sem er 16.5 milljón pixlar. Þar sem pixel-þéttleikinn er minni á fimmunni skilar hún hreinni skrám. Því grunar mig að þessi nýji þristur frá Nikon eigi eftir að verða algjör dúndur vél. Algjör snilld fyrir blaðaljósmyndara og “event” ljósmyndara eins og mig. Við feðgar erum með sitt hvort kit-ið og því verður uppfært á báða bóga. Við erum svona “bæði betra” menn. Veljum bara allt dótið!

kjos-veidi.jpg
Laxá í Kjós, Hasselblad X-pan 45mm f/4, Ilford XP2

Svo er allt annað líka brjálað. Ég er upp fyrir haus í myndvinnslu. Brúðkaupin bíða í röðum eftir vinnslu. Svo er ég að leggja lokahönd á úrvinnslu mynda frá veiðiferð sem ég myndaði í byrjun ágúst. Var tvo daga í Kjós að elta veiðimenn. Lítið um fisk, en ég var þó svo heppinn að vera tvisvar á réttum stað þegar laxinn tók. Furðulegt fyrir mig að vera svona heppinn? Hef hingað til verið talinn frekar seinheppinn. Eða er ég kannski bara svona klaufi? Það var alla vega þokkaleg heppni þar sem stangirnar eru tíu (og því 20 veiðimenn) á frekar stóru svæði. Áin var reyndar stútfull af fiski, en það var svo lítið í henni að hann var ekkert að taka. Á meðan veiðimennirnar köstuðu í gríð og erg stökk bæði lax og sjóbirtingur bókstaflega á milli fóta þeirra! Ég hafði mjög gaman af þessu verkefni. Hvernig er annað hægt þegar maður fær greitt fyrir að vera tvo heila daga úti í náttúrunni að leika sér? Ég tók með mér Xpan og skaut nokkrar filmur svart/hvítt, svona til að fá annan vinkill með þessu stafræna.