Filmusnobb

Eystrahorn

Mig langar að segja ykkur frá tilraun sem ég gerði. Í einni af ferðum mínum um landið voru veðurbrigðin þannig að ég ákvað að vinna þessa mynd frá Eystrahorni í svart/hvítu. Ég notaði eitthvað Lightroom preset sem líkir eftir Kodak Tri-X og póstaði svo myndinni á Facebook.

Svo kom upp einhver púki í mér. Ég skrifaði myndatexta þar sem ég skrökvaði að myndin væri tekin á filmu.  Ég gekk meira að segja svo langt að skrifa hvaða myndavél, linsu, filmu og framkallara ég hafði notað.

Það stóð ekki á viðbrögðunum. Margir voru gríðarlega hrifnir af því að ég væri að skjóta á filmu. Sumir gengu meira að segja svo langt að segja að þetta væri “meira alvöru”. Það voru reyndar tveir vinir mínir sem sáu í gegnum þetta. Þeim fannst skrítið að hafa aldrei séð Nikon FM vélina mína. Eins vissu þeir að ég var nýlega búinn að vera á svæðinu með kúnnana mína. Það var því ómögulegt að ég hafði náð að framkalla og skanna á meðan ég var enn á ferðalagi 🙂

Dyrhólaey

Mér fannst þetta svo skemmtilegt að ég póstaði tveimur öðrum myndum seinna, bara til að sjá hvort kenning mín um filmusnobbið væri á rökum reist. Svo reyndist vera.

Hraundrangi, Öxnadal.

Filmusnobbið er þannig að ljósmynd fær aukið gildi við það eitt að hafa verið skotin á filmu. Stundum virðast meira að segja frekar slappar myndir verða að listaverkum við það eitt að hafa verið skotnar á filmu. Snobbið er einnig í réttu hlutfalli við filmustærð. Medium format er flottara en 35mm – og ef 4×5″ blaðfilma kemur við sögu er myndin nánast samstundis komin í meistaraflokk.

Ert þú filmusnobbari?

Hópkaup eða hópgubb?

Sindri Benedikt Hlynsson (Christopher Lund/©2011 Christopher Lund)

Umræðan um faglærða vs. ófaglærða ljósmyndara heldur áfram. Undanfarnar vikur hafa myndatökutilboð á hópkaup verið í brennidepli, ekki síst á umræðuvefnum ljosmyndakeppni.is. Sitt sýnist hverjum. Ég hef ekki haft tíma til að setja mig mikið inn í þessi mál, en varð vægast sagt undrandi þegar ég sá að ekki var bara um ófaglærða ljósmyndara að ræða.

Ef fólk vill bjóðast til að taka myndir fyrir lítið sem ekkert og selja slíkar tökur í tuga- eða hundraðavís, skiptir þá e-h máli að viðkomandi sé faglærður eður ei?

Það hlýtur hver heilvita maður að sjá að þessi tilboð geta aldrei gefið góða afurð af sér. Ef viðkomandi ljósmyndari vill halda e-h metnaði og ekki hætta mannorði sínu, er ljóst að tímakaupið er lágt og vinnan mikil. Mjög mikil.

Til að hafa eitthvað upp úr svona rugli er eina ráðið að gera myndatökurnar að einsleitri færibandavinnu þar sem ekkert svigrúm er t.d. fyrir það að vinna traust þeirra barna sem á að ljósmynda. Þeirri ábyrgð er þá sjálfsagt velt yfir á kúnnann?

Þegar fólk fer til fagljósmyndara er það ekki að kaupa prentaðar myndir eða jólakort. Það er ekki heldur að kaupa mínútur í studio. Það er að kaupa þekkingu og reynslu – það sem margir myndu kalla fagmennsku. Að ætla sér að afgreiða myndatöku á 20-30 mínutum finnst mér ekki vera fagmennska heldur argasta fúsk. Sama hvaða “skóla” viðkomandi hefur farið í.

í lífsins ólgusjó


Dísan í spænsku brimi. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 50mm f/1.2L

Þessi mynd lýsir líðan fjölda Íslendinga sem nú eru staddir í lífsins ólgusjó. Nei, bara grín. Fannst þetta bara sniðug mynd af henni móður minni.

Ég notaði annars kvöldið til þess að vinna nokkrar myndir frá ferðinni okkar til Spánar nú í september. Þær má skoða hér. Svo er hér ein frá Ronda sem er samsett úr einum 8 myndum eða svo. Skellti henni því líka inn sem zoomify mynd hér.

Guð blessi ykkur (og bankana).

Kári og kreppan


Kári Stefánsson. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 85mm f/1.2L II.

Ég ljósmyndaði svolítið fyrir DeCODE um daginn í tengslum við ársskýrsluna þeirra. Það var skemmtilegt verkefni og áhugavert. Ég hafði ekki áður komið í höfuðstöðvarnar, en aðstaðan til rannsókna á þessu sviði er sögð vera ein sú besta í heiminum. Fá fyritæki hafa verið jafn mikið í umræðunni undanfarin ár eins og DeCODE. Margir urðu ríkir þegar uppgangurinn var sem mestur á árdögum þess – og ófáir urðu svekktir þegar þeir komu of seint til leiks og uppskáru kannski lítið annað en skell.

En svona er lífið og fjármálamarkaðurinn auðvitað líka. Mér finnst kostulegt þegar fólk tekur því sem persónulegri móðgun þegar efnhagslífið tekur dífur. Enn kostulegra finnst mér að fólk tali um kreppu nú á dögum. Kreppa er þegar fólk líður virkilegan skort og þarf að skipuleggja hver einustu fjárútlát. Auðvitað er til fólk hér á landi sem býr við bág kjör, en þorri almennings lifir eins og blóm í eggi – kaupir sína flatskjá, hjólhýsi og fjórhjól. Mín kynslóð hefur aldrei liðið skort og hefur almennt frekar lítið þurft að hafa fyrir hlutunum. Að fara að væla núna, vegna þess að ekki er lengur hægt að fá 90-100% lán fyrir öllu mögulegu er barnalegt.

Við þurfum að gera eins og DeCODE. Horfast í augu við raunveruleikann, skera niður og halda svo ótrauð áfram. Ég meina – sýnist ykkur gaurinn hér að ofan líta út fyrir að leggja árar í bát þegar á móti blæs?