Er framtíðin án spegils?

Á Vestfjörðum, Sony A7r, FE 35mm f/2.8 ZA, f/8 - 1/80s @ ISO 100
Á Vestfjörðum, Sony A7r, FE 35mm f/2.8 ZA, f/8 – 1/80s @ ISO 100

Ég fékk lánaða Sony A7r hjá Nýherja í viku ferðalag um Vestfirði og Strandir í byrjun júní. Mig langaði að kynnast þessari verðlaunavél betur – í aðstæðum sem ég sá fyrir mér að hún hentaði vel. Stundum kemur sér vel að vera með léttari vél, sem maður grípur í og smellir bara af. Ég ákvað því að nota vélina mest án þrífót, nota auto-ISO og nota eingöngu þessar tvær sony/ziess linsur sem ég fékk lánaðar með vélinni: FE 35mm f/2.8 ZA og FE 55mm f/1.8 ZA.

Eldhraun við sólsetur, Sony A7r, FE 35mm f/2.8 ZA, f/11 - 1/60s @ ISO 1000
Eldhraun við sólsetur, Sony A7r, FE 35mm f/2.8 ZA, f/11 – 1/60s @ ISO 1000

Í stuttu máli kom vélin ákaflega vel út. Myndgæðin eru verulega góð, flagan í henni er sú sama í grunninn og í Nikon D800/E, þó að Nikon vinni öðruvísi úr gögnunum. Samt sem áður eru skrárnar keimlíkar Nikon D800/E hvað varðar lita- og tónadýpt. Sony A7r er létt og skemmtileg, húsið er verklegt, liggur vel í hendi og rafræni skoðarinn sá besti sem ég hef notað. Skjárinn er líka góður, nægilega bjartur til að hægt sé að nota hann í sól og frábært að fá histogram og hallamál fram bæði í rafræna skoðaranum og á skjánum. Ljósmælingin var almennt mjög fín, vélin var oftast að negla mælinguna – án þess að sprengja háljósin.

Litla Hlíð við Þingeyri, Sony A7r, FE 55mm f/1.8 ZA, f/1.8 - 1/5000s @ ISO 100
Litla Hlíð við Þingeyri, Sony A7r, FE 55mm f/1.8 ZA, f/1.8 – 1/5000s @ ISO 100

Ziess linsurnar eru virkilega fínar, góð skerpa, litir og mikrokontrast. Fókusinn er þokkalega hraður, þó að hann eigi nú töluvert í land með að ná fókushraða D-SLR. Þannig að A7r er tæpast vélin sem maður grípur í til að ljósmynda mikið action. Ég veit að töluvert af ljósmyndurum hafa fengið sér Sony A7r til að að bæta við D-SLR kitið, ekki síst Canon ljósmyndarar sem vilja hafa möguleika að fá meiri upplausn. Þá notast menn gjarnan við millihringi t.d. frá Metabones til að nota Canon EF linsur.

Lund Rover við Lómagnúp, Sony A7r, FE 35mm f/2.8 ZA, f/8 - 1/100s @ ISO 100
Lund Rover við Lómagnúp, Sony A7r, FE 35mm f/2.8 ZA, f/8 – 1/100s @ ISO 100

Sony A7r er frábær vél og góð kaup þar sem verðið á henni er það lægsta sem sést hefur fyrir full-frame 36MP myndavél. Það er því ekki skrítið að hún hefur fengið mjög góðar viðtökur um allan heim. Canon notendur hafa margir stokkið á hana til að hafa möguleika á því að nota bestu Canon glerin á vél sem gefur meiri upplausn en Canon býður upp á. Nikon D800 eigendur eiga kannski svolítið erfiðara með að réttlæta kaupin. Helsti gallinn við hana að það vantar sárlega góðan víðvinkill frá Sony. Jú, vissulega er hægt að nota millihringi og þannig nota gleiðhornalinsur frá Nikon. En heila málið fyrir mér er að fá létta vél, með nettum linsum sem virka fullkomlega með vélinni. Að troða Nikkor gleiðhornalinsum framan á hana með aðstoð millihringja er ekki alveg málið að mínu mati.

Sólarupprás við Arnarfjörð, Sony A7r, FE 35mm f/2.8 ZA, f/8 - 1/20s @ ISO 100
Sólarupprás við Arnarfjörð, Sony A7r, FE 35mm f/2.8 ZA, f/8 – 1/20s @ ISO 100

Engu að síður blóðlangar mig í Sony A7r, hún kemur með nýja möguleika og það eitthvað sem heillar mig alltaf. Vélin lætur lítið yfir sér og fólk verður ekki eins hrætt við mann vs. þegar maður mundar D-SLR fyrir framan það. Myndgæðin eru frábær og gæðin sem hún skilar með því allra besta sem gerist á markaðnum í dag. Það er eitthvað mjög heillandi við að hafa svona netta græju með sér og taka snap-shot sem eru samt sem áður í toppgæðum.

Ég get því óhætt mælt með Sony A7r og hvet alla til að kynna sér þennan kostagrip betur.

Ljósmyndaferð í janúar

Leiðsöguárið byrjaði með skemmtilegri ljósmyndaferð með þeim félögum Harry og Dougie. Þeir höfðu samband í desember og vildu fá 5 daga ferð til að ljósmynda norðurljós og veturinn á Íslandi.

Ég sótti þá félaga út á flugvöll seinnipart á þriðjudegi og svo var haldið beint að stað með stefnuna austur. Ég stoppaði fyrst með þá í Seltúni við Krýsvík, svona rétt til að koma þeim í gang – þó að birtan væri alveg að hverfa. Við ókum svo nýja suðurstrandarveginn og fengum dýrindis kvöldmat í Rauða húsinu á Eyrarbakka.

Fyrsti gististaður var hins vegar í Vík í Mýrdal á Hótel Lunda. Morguninn eftir var grenjandi rigning og rok, hressandi suðaustan fyrir allan peninginn. Við fórum af stað um sólarupprás og ljósmynduðum í Reynisfjöru. Þessi staður er nú ekkert síðri í góðu roki!

Reynisfjara black sand beach on the south coast of Iceland. Reynisdrangar sea stacs in background. January morning twilight. (Christopher Lund/©2013 Christopher Lund)

Það þarf að koma gestum okkar vel í skilning um hættuna í Reynisfjöru, en aldan þar getur verið mjög viðsjárverð. Sunnan rokið og rigning gerði okkur líka erfitt fyrir að mynda, enda komu regndropar á linsuna á augabragði. Þetta var fyrsta myndin sem ég tók þennan morgun og sú eina sem reyndist nothæf.

Við eyddum samt morgninum þarna, fórum svo í pylsur í Víkurskála og svo var líka ljósmyndað í fjörunni í Vík. Harry hefur komið tvisvar áður til Íslands og er gjörsamlega vitlaus í SS pylsur. Ekki sá fyrsti af mínum kúnnum sem kann vel við pylsurnar okkar. Lambakjötið í bland við svínið gerir gæfumuninn 🙂

Á leiðinni austur stoppuðum við hjá Foss á Síðu. Harry hafði orð á því að það væri nú meira líf yfir fossinum, en hann sá hann síðast í þurrkatíð að sumri. Regnið kom nú lárétt úr austri, svo það var lítið annað að gera en að mynda í skjóli við bílinn eða húsvegg. Þetta gamla skilti heillaði mig þarna við húsvegginn.

The old sign for the farm Foss á Síðu lies on the ground, by one of the older houses. The waterfall (also called Foss á Síðu) in background. The water comes from a lake called Þórutjörn. (Christopher Lund/©2013 Christopher Lund)

Ferðinni var svo haldið áfram í átt að þjóðgarðinum í Skaftafelli. Við ljósmyndum við Svínafellsjökul áður en birtan kláraðist og héldum svo áleiðis til Bjössa í Gerði, en þar áttum við eftir að gista næstu þrjár næturnar. Það er alltaf gott að koma í Gerði. Eitthvað fannst nú Dougie samt rúmin vera of lítil. Held að hann hafi bara verið fúll út af því að Harry fékk herbergi með tvíbreiðu rúmi. Það leystist þó allt farsællega og báðir voru þeir ánægðir með dvöl sína í Suðursveitinni.

Daginn eftir héldum við út að Jökulsárlóni til að sjá hvort það væri ekki ísjakar á ströndinni. Og maður lifandi, ég hef aldrei séð jafn mikið af ís á ströndinni! Bæði voru klakarnir margir og stórir. Það er strembið að mynda við þessar aðstæður, því þeir renna bara allir saman í rammanum. Ströndin var líka orðinn brött út af briminu og hvergi góður staður til að fanga ölduna á hreyfingu í kringum ísinn. Þá þarf maður að reyna finna form og þess háttar, eða bara skilja vélina eftir í bílnum og taka smá hugleiðslu á þessum magnaða stað.

Eftir dágóðan tíma á ströndinni fórum við upp að lóninu. Þar voru Bandaríkjamenn að taka myndir fyrir fyrirtæki sem framleiðir blautbúninga. Asskoti fínt að fá gaurinn inn í rammann á réttu augnabliki, rétt þegar rofaði aðeins til á himni og þessi hlýja birta kom í skýin fyrir ofan ísinn á lóninu.

Jökulsárlón Glacial Lagoon, Southeast Iceland. A surfer wearing a wet suite paddeling out towards the ice (Christopher Lund/©2013 Christopher Lund)

Dagurinn var fljótur að líða og gestirnir voru afar sáttir í þessu undralandi íssins. Daginn eftir áttum við pantaða íshellaferð með Einari í Hofsnesi. Einar er mikill fagmaður og frábær náungi. Eitthvað fékk Harry þó innilokunarkennd þegar inn í íshellinn var komið. Ég sá að hann var mjög óöruggur á leiðinni inn í hann, enda bæði sleipur ís og mjúk drulla inn í hellinum. Harry er slæmur í hnjánum og átti erfitt með að fóta sig. Þegar við vorum komnir inn var eins og hann ætlaði að fara að taka upp vélina og mynda, en hætti svo snarlega við og dreif sig bara út aftur. Ekkert við því að gera og við Dougie gátum lítið talað um fyrir honum.

Einar Rúnar Sigurðsson, Mountain Guide by the entrance of an Ice Cave in Svínafellsjökull Outlet Glacier.d (Christopher Lund/©2013 Christopher Lund)

Eftir íshellaferðina fór ég með þá félaga yfir í þjóðgarðinn og við fengum fallega birtu til að mynda speglun í tjörnum við Skaftafell. Veðrið var hvað best þennan dag og magnað hvað það er  staðbundið á þessu svæði. Við ókum úr rigningarsudda við Jökulsárlón og við Hof var brjálað rok, en dúnalogn inn við Svínafellsjökul aðeins örfáum kílómetrum austar. Fjöllin og jöklarnir búa til sín eigin veðurkerfi og ómögulegt að reiða sig of mikið á veðurspár á þessu svæði.

Svartifoss (Black Fall) waterfall in Skaftafell National Park in Iceland. The fall is surrounded by dark lava columns of Basalt, which gave rise to its name. (Christopher Lund/©2013 Christopher Lund)

Á síðasta degi var svo ekið í vestur í átt að höfuðborginni. Þeir mynduðu reyndar aftur ís á ströndinni í upphafi dags og svo byrjuðum við að bruna tilbaka. Ég vildi ljúka degi upp á Dyrhólaey og til að ná því mátti ekki stoppa of lengi í myndastoppunum á leiðinni. Við fengum ágætis birtu við Lómagnúp og náðum að ljúka ljósmynduninni upp á Dyrhólaey í allra síðustu birtu dagsins. Lýsingartíminn á myndinni þaðan er rétt tæpar fjórar mínútur – enginn LEE big stopper nauðsynlegur í þetta skiptið.

The small peninsula, or promontory, Dyrhólaey (120m high) is located on the south coast of Iceland, not far from the village Vík. It was formerly an island of volcanic origin, which is also known by the Icelandic word eyja meaning island. This view is to the south. (Christopher Lund/©2013 Christopher Lund)

Áður en ég kom þeim félögum út í Keflavík tók ég smá rúnt um Reykjavík – enda hafði Dougie aldrei séð borgina. Harry fékk einn skammt í viðbót á Bæjarins Beztu og staðfesti að þær voru töluvert betri þar enn í Víkurskála 🙂

 

Photo Guide

Þá er Photo Guide síðan mín opinberlega komin í loftið. Hún er reyndar búin að vera aðgengileg í nokkurn tíma, enda var ég að föndra við hana frá því í haust og fékk álit góðra vina “á leiðinni”. Merkið hannaði hinn mæti drengur og afbragðshönnuður Oscar Bjarnason.

Ég er búinn að eiga þann draum í nokkurn tíma að geta ferðast og ljósmynda meira en ég geri í dag. Mikið meira! Ég fann út að leiðsegja erlendum ljósmyndurum um landið væri líklega ágæt leið til þess að gera drauminn að veruleika. Leiðsögunámið í EHÍ var eitt púslið sem mig vantaði og meiraprófið sömuleiðis.

Einhvers staðar segir að góðir hlutir gerist hægt. Þrátt fyrir að vera fljótfær týpa (ég kýs að kalla það ástríðu) þá er ég með báðar fætur á jörðinni og geri mér grein fyrir því að það tekur tíma að byggja upp orðstýr og rekstur á þessu sviði. Ég er því rétt að byrja á verkefninu – sem ég vona að muni reynast mér og öðrum skemmtilegt.

 

Sjötugur unglingur

Quon Chow ljósmyndar á Þingvöllum. ©2010 Christopher Lund.

Í starfi mínu kynnist ég oft skemmtilegu fólki. Quon Chow er einn af þeim. Hann réði mig sem ljósmynda-leiðsögumann í fjóra daga, eftir að hafa verið í heila viku með PhaseOne PODAS workshop genginu. Quon er fæddur í Kína, en er bæði Kanadískur og Bandarískur ríkisborgari. Hann hætti að vinna fyrir 10 árum og hefur síðan einbeitt sér alfarið að áhugamálinu sínu.

Ég ákvað að halda á norður því spáin sagði SA-átt. Auk þess var hann búinn að vera á suðurströndinni með PODAS, búinn að fara að Fjallabaki, Skaftafell og Jökulsárlón. Þau voru frekar óheppin með veður, þannig að það kom vel til greina að fara að Fjallabaki aftur. Síðustu helgi fór ég hins vegar ásamt Margréti Syðra-fjallabak í brjáluðu suðaustan roki, svo ég vissi að það var ekki alveg málið í ljósmyndaferð.

Strokkur að gjósa. ©2010 Christopher Lund.

Við fórum snemma af stað á mánudaginn var og héldum norður Kjöl. Komum við á Þingvöllum, Geysi og Gullfossi. Hinn gullni hringur var tekinn í eldsnöggan forrétt. Eftir það voru það Kerlingarfjöll, sem sviku ekki þrátt fyrir létta rigningu. Quon var svo hrifinn að hann ætlar að koma aftur til Íslands, nánast eingöngu til að eyða meiri tíma þar! Eftir Kerlingarfjöll var ekið nokkuð beint á Mývatn, en þar smellt ég upp tjaldinu góða á meðan hann kom sér fyrir á Hótel Reynihlíð.

Skrifstofan á Mývatni. ©2010 Christopher Lund.
Sólarupprás á Námafjalli. ©2010 Christopher Lund.

Það var ræs rétt rúmlega fimm daginn eftir og við komum okkur fyrir uppi á Námafjalli til að ná sólarupprás. Með í för slóst Steve Pelton, annar ljósmyndari sem hafði verið með PODAS hópnum og var kominn norður á eigin bílaleigubíl. Við fengum fjári góða birtu og mynduðum í góða tvo tíma áður haldið var í morgunmat á Hótelinu. Eftir það var bara slakað á fram eftir degi, en ég fór seinni partinn með Quon upp í Gjástykki og ók svo slóðann yfir að Þeistareykjum með viðkomu í Litla-víti. Engin leið að ná því almennilega á mynd, en mikið djöfull er magnað að sjá þessa risaholu í jörðinni þarna! Þeistareykir voru fallegir í kvöldbirtunni, en það eru ótrúlega miklar breytingar sem verða á fáeinum dögum. Ég var þarna fyrir þremur vikum og þá entist sólsetrið töluvert lengur.

Sólsetur á Þeistareykjum. ©2010 Christopher Lund.

Á miðvikudaginn héldum við svo áleiðis vestur á Snæfellsnesið, ljósmynduðum Dimmuborgir, Mývatn og Goðafoss á leiðinni og svo fengum við fallega birtu í Öxnadal líka. Komum kl 20 á Hótel Stykkihólm eftir nokkuð stífan keyrsludag, en ég var að veðja á þokkalega birtu síðasta daginn á Snæfellsnesinu. Samkv. veðurkortinu var spáð rigningu svo til um allt land, en síst þar.

Berserkjahraun. ©2010 Christopher Lund.

Berserkjahraunið klikkaði ekki og ekki spillti fyrir að sjá fjóra erni á flugi! Við notuðum daginn til að dóla allt Snæfellsnesið, veðrið fór reyndar versnandi en við náðum nokkrum skotum, t.d. við Djúpalón, Hellna og Búðir. Það var afar sáttur sjötugur unglingur sem kvaddi mig um kvöldmatarleytið á Hilton og ekki síður sáttur leiðsögumaður við stýrið á Lundanum.

Ég kem til með að gera meira af þessu, það er nokkuð ljóst!