DIM 41

Jazztríóið DIM 41 á æfingu. ©2009 Christopher Lund
Jazztríóið DIM 41 á æfingu. ©2009 Christopher Lund

Í föstudaginn í síðustu viku var ég fluga á vegg á æfingu hjá frábærum tónlistarmönnum. Jazztríóið ber vinnuheitið DIM 41, en þeir æfa nú efni eftir Árna Heiðar Karlsson, sem er arkitektinn af tríóinu. Tríóið skipa: Árni Heiðar Karlsson á píanó, Gunnar Hrafnsson á kontrabassa og Matthías Hemstock á trommur.

Hér má svo finna vefgallery með fleiri myndum frá æfingunni.

Ég mun fylgja þeim eftir næstu mánuði, ljósmynda æfingar, upptökur, tónleika og ferðalög. Þetta var því einungis upphafið á nokkuð stærra verkefni. Ég verð að viðurkenna að ég var pínu stressaður yfir því að ég myndi ekki fíla tónlistina. Jazz er nefnilega ekki það sama og jazz. En ég þarf ekki að hafa frekari áhyggjur af því. Þetta er massaflott tónlist, akkúrat á þeirri línu sem ég fíla.

Það er nauðsynlegt fyrir ljósmyndara að umgangast annað skapandi fólk. Því er ég mjög ánægður og um leið spenntur fyrir þessu verkefni.

Árna kannaðist ég annars við í gegnum sameiginlegan vin okkar Andra Snæ. Við þrír fórum ásamt Freysa að skíða á Snæfellsjökul um Páska fyrir nokkrum árum síðan. Það var truflaður dagur. Fórum tvær ferðir, fyrst með troðaranum upp og svo húkkuðum við far með jeppafólki til að ná annari ferð, gratis!

Skíðað á Snæfellsjökli
Skíðað á Snæfellsjökli © Christopher Lund

Ég er einmitt að fara með Frey og fjölskyldu norður um Páskana. Ekki á Akureyri þó, heldur leigjum við hús á Hofsós og ætlum að skíða í Tindastól. Ég hef ekki ennþá prófað það svæði og hlakka mikið til.

Glöggir lesendur taka kannski eftir nýrri virkni hér á síðunni. Ef smellt er á myndirnar hér að ofan opnast þær stærri og bakgrunnurinn verður dekkri. Dýrari týpan.

Rakadrægur og skuldlaus


Ekkert helv… myntkörfulán. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 50mm f/1.2L

Alltaf hressandi þegar maður þarf að skafa bílrúðuna að innan… Annars er ég alveg skíðahress eftir vel heppnaða Akureyrarferð. Við náðum fimm dögum á skíðum. Hlíðarfjallið sveik ekki, frábært skíðasvæði fyrir fjölskyldufólk.

Ari Carl náði mun betri tökum á sportinu, enda er þarna forláta töfrateppislyfta fyrir púka eins og hann. Að vísu finnst honum skíðaiðkunin bara mátulega spennandi. Sonur minn er meira svona innitýpa. En hann kemst ekki upp með neitt múður.


Ari Carl skíðakappi. Canon EOS 5D Mark II, EF 24-70mm f/2.8L

Þrátt fyrir töluverðan fjölda í fjallinu (sérstaklega um helgina) þá var aldrei mikil biðröð í lyfturnar. Fólk dreifist vel um svæðið svo það er ekki stappað í brekkunum heldur. Það er til fyrirmyndar hversu mikið af starfsfólki er til aðstoðar við lyfturnar og góð upplýsingagjöf um kallkerfi. Akureyringar kunna greinilega að reka skíðasvæði. Ég held að ÍTR gæti lært svolítið af þeim í Hlíðarfjalli.

Verst finnst mér hversu lítið eftirlit er í brekkunum í Bláfjöllum. Svæðið þar er takmarkaðra og því oft ansi þröngt í brekkunum. Það skapast hætta þegar bæði skíða- og brettafólk rennir sér allt of hratt miðað við aðstæður. Ég hef nokkrum sinnum lent í því með börnin mín.

Ég skrifaði þeim í Bláfjöllum tölvupóst varðandi þetta og fékk svar um að þeir ætluðu að skoða málið. Ég hef þó ekki orðið var við eftirlit í sjálfum brekkunum, hvorki fyrr né síðar. Erlendis er fólki umsvifalaust vikið af svæðinu ef það sýnir dómgreindarleysi í brekkunum.

En hættum nú í nöldurhorninu. Það viðrar vel í dag.. og því líklegt að maður skelli sér í aftur í fjöllin!

Hvert fór snjórinn?


Hver fór snjórinn? Canon EOS 5D Mark II, EF 50mm f/1.2L

Nú, norður auðvitað.

Og þá dugar ekkert minna en að renna sér til Akureyrar á skíði. Vetrarfríið framundan hjá púkunum mínum og því upplagt að leggja land undir fót (eða dekk öllu heldur). Það verður stuð að renna sér aftur í Hlíðarfjalli, hef ekki gert það í rúm 10 ár (úff hvað maður er orðinn gamall).

Bleeeeessaður meistari!


Aron Freyr heilsar að hætti Spiderman. Canon EOS 5D Mark II, EF 50mm f/1.2L

Helgin var fín maður. Sérstakleg sunnudagurinn, enda komst maður loksins aftur á skíði. Í ljósi þess hversu lítið hefur snjóað undanfarið, kom það mér verulega á óvart hversu mikill snjór var upp í Bláfjöllum. Það voru allir fjölskyldumeðlimirnir að prufukeyra ný skíði. Margrét og Bjargey á nýjum jóla-skíðum og Arndís og Ari á notað-nýjum. Sjálfur var ég nýbúinn að fá mér mín fyrstu Carving skíði og þvílíkur munur!


Ari Carl klár í brekkurnar. Canon IXUS 55.

Veðrið var meiriháttar, færið fínt og félagsskapurinn líka. Get ekki ímyndað mér betri sunnudaga en svona skíðasunnudaga. Eftir rúma fimm tíma í fjallinu brunuðum við svo í Hafnarfjörðinn til Möggu og Ívars í matarboð. Ekki amalegt að þurfa ekki einu sinni að hafa fyrir kvöldmat eftir svona vel heppnaðan dag í fjöllunum.


Ívar skreytir börnin. Canon EOS 5D Mark II, EF 50mm f/1.2L


Spiderman 1 og 2 helmassaðir á kantinum. Canon EOS 5D Mark II, EF 50mm f/1.2L

Þar voru líka þau Eyþór (bróðir Möggu) og Ása með börnin sín. Eyþór er ljósmyndari, helv.. flinkur strákur. Merkilegt að við ljósmyndararnir skírum báðir strákana okkar sama nafni – Ari. Ég var reyndar spurður að því um daginn hvort það væri til heiðurs Ara Magg. Hmmm… kannski er eitthvað í undirmeðvitundinni sem fær okkur ljósmyndarana til að skíra í höfuðið á sjálfum meistaranum? Bleeeesaður meistari….


Ari Ævar. Canon EOS 5D Mark II, EF 50mm f/1.2L

Stephan, Spessi, Sýningar og Skíði


President Bongo – pappahólkur – Spessi. EOS 1Ds Mark III, EF 50mm f/1.2L

Fyrst hér mynd af þeim Stephan og Spessa. Þeir voru hjá mér á föstudaginn. Hólkurinn var fyrir mynd sem ég var að prenta fyrir Spessa. Sú sama og er á kápunni á Location bókinni. Hún er líka hrikalega flott í stærðinni 100×100 cm. Stephan þekkja flestir í tengslum við GusGus. En ekki allir vita að hann er þrælgóður ljósmyndari. Mér finnst það stór plús við þessa prentþjónustu, sem ég fór að bjóða í bland við allt hitt, -> að hitta svo mikið að listamönnum sem allir hafa ferska sýn og gefa manni innblástur. Ég dróg þá líka út og smellti af þeim á filmu. Það gerði ég eftir að Stephan kommentaði á myndavélina sem ég notaði við tökuna hér að ofan. Hann sagði: “Eru þessar stafrænu myndavélar svolítið að koma núna?” Og þar sem Spessi er unoffical Herra Hasselblad Íslands varð ég að taka Bladdarann fram og smella umhverfisportretti af þeim saman. Það er líka komið þetta fína veggjakrot baka til hjá okkur á Hverfisgötunni, sem var upplagt að hafa með. Pósta þeirri mynd þegar ég búinn að framkalla!

Það er reyndar rauði þráðurinn við íslenska ljósmyndara/listamenn -> þeir skjóta flestir á filmu. Tveir úr þeim hópi opnuðu mjög góðar ljósmyndasýningar um helgina, þeir Páll Stefánsson og Einar Falur. Sýningarnar eru reyndar mjög ólíkar þar sem Einar Falur vinnur eingöngu með svart/hvítt og mest á 35mm en Palli með lit eingöngu á medium format. Sameiginlegt eiga þeir félagar að hafa mjög gott auga fyrir umhverfinu. Einar sýnir ákaflega vel unnin, handstækkuð fiberprint sem gleðja nostalgíst ljósmyndaraaugað. Sýningin hans Palla er á neðri hæðinni á Gerðarsafni. Hún er snilldarlega uppsett og Páll sýnir enn og aftur hversu frumlega sýn og hversu tæknilega sterkur hann er. Því fannst mér synd hvað minni myndirnar vantaði meiri teikningu og skerpu, nokkuð sem er klárlega fyrir hendi í hans frumfilmum. En heildarmyndin er sterk svo það eru sjálfsagt fáir sem eru að spá í svona atriði, aðrir en nörrar eins og ég.

Á efri hæðinni í Gerðarsafni er svo Mynd ársins – árleg sýning blaðaljósmyndara. Ég er búinn að skoða hana mjög vel þar sem ég tók vinnslu hennar að mér og hef því verið með þessar myndir fyrir framan mig í nokkrar vikur. Sýningin er því miður of mikið í takt við það metnaðarleysi sem ríkir hjá dagblöðum landins. Einu sinni var gaman að fletta Mogganum út á það eitt að skoða góða frétta- og blaðaljósmyndun. Í dag er fátt um fína drætti. En ekki misskilja mig. Þetta er ekki meint sem gagnrýni á ljósmyndarana. Það eru að sjálfsögðu góðar ljósmyndir innan um. En það er klárt mál að aðstaða þeirra hefur á skömmum tíma gjörbreyst og ljóst að dagblöðin hugsa meira um að selja auglýsingar í e-h sérblöð um verktaka eða fermingar, heldur en að segja okkur frá og sýna hvað er raunverulega að gerast á Íslandi í dag. Rax tekur ekki þátt í sýningunni í ár – og ég er nokkuð viss um að það er ekki tilviljun. Samtímaljósmyndun virðist eingöngu orðin í höndum áhugamanna og listamanna. Flickr sýningin var að mörgu leyti betri samtímaheimild en Mynd ársins. Eða hvað finnst ykkur?


Suðurgil í Bláfjöllum. Canon Ixus 55.

Í dag skellti ég mér svo á skíði með dætrum mínum. Frábær dagur alveg, gott veður, fínt færi og engar biðraðir. Um tíma leið manni bara eins og í Austurríki. Mér finnst eins og margir gleymi svæðinu við Suðurgil. Þar er sólin fljótari að byrja að sleikja brekkurnar og oft svolítið skjólsælla. Það er á svona dögum sem maður rifjar upp dagdraumana sem maður átti sem unglingur um að verða skíðakennari og eyða heilum vetrum erlendis á skíðum allan liðlangan daginn. Lífið er ljúft.

Heja Norge 3

geilokerti.jpg

Þetta eru Geilokerti. Norðmönnum nægja nefnilega ekki venjuleg Grýlukerti. Þau eru e-h svo þreytt. Þessi eru miklu hressari og reyna að komast inn til manns ef maður skilur eftir opinn glugga. Allt í lagi, ég skal hætta að bulla. Þegar hlánaði undir lok ferðar komu þessi ferlíki skríðandi niður. Það var mikið snjófarg á þakinu og það endaði með því að allt rann niður með látum og við urðum bókstaflega að moka okkur út úr bústaðnum daginn sem við fórum heim. Annars hafa margir beðið um fleiri myndir úr ferðinni. Í stað þess að dúndra þeim öllum hér inn ákvað ég að útbúa vefgallery sem má skoða hér.

geilopano.jpg

Ennfremur útbjó ég þessa mynd hér að ofan. Þetta er samsett mynd úr ca 10 skotum, tekið handhelt með EOS 5D og 135mm linsu. Myndunum skeytti ég svo saman í Autopano Pro. Með því að smella á myndina eða hér opnast hún sem zoomify mynd sem hægt er að stækka upp og skoða þannig í mun meiri smáatriðum. Það má sjá gömlu Hyttuna hans afa mjög vel en hún er staðsett nánat í brekkunni sem er lengst til vinstri á myndinni. Vonandi hafið þið gaman af því að leika ykkur með þetta.

Heja Norge 2

geilopusl.jpg

Það hafði bæst í snjóinn þegar við vöknuðum fyrsta daginn okkar á Geilo. Ari Carl var ekkert rosalega ferskur enda fórum við með pjakkinn hálf veikan út. Meira að segja stuðið í Bubba byggir púslinu fór fljótt. Við morgunverðarborðið komu fyrstu áhyggjurnar af “brekkunni” fram, en hún hefur oft reynst bílunum erfið ef það er mikill snjór. Ætli það sé ekki réttara að segja að hún hafi reynst bílstjórunum erfið. Brekka þessi (sem er frekar meinlaus) liggur sem sagt frá Hyttunni upp á aðalveginn. Og það kom á daginn. Systir mín bakkaði svolítið of mikið til hægri og þar sat þessi fíni Opel Vectra Station pikkfastur. Ég var búinn að aka upp á okkar bíl, en við vorum á Skoda Octavia TDi. Að sjálfsögðu tókst mér að komast án vandræða upp! Við reyndum að ýta druslinni en ekkert gekk og að lokum fengum við aðstoð frá lokal gröfukarli. Hann var orginal. Eftir þetta ævintýri ákváðum við að setja hurtig-kjettinger undir bílana (keðjur sem sagt, en ekki hraðskreiða kéttlinga). Frá og með þeirri stund vorum við þekkt í Geilo sem “keðjufólkið”, því keðjukvikindin voru ekki mjög samvinnuþýðar í ásetningu og því langt frá því að vera vel fastar. Fyrir vikið skullu þær með þvílíkum látum við felgurnar. Þegar við ókum um bæinn var eins og hestavagnalest væri á ferð.

geiloski1.jpg

Næstu daga var svo skíðað eins og okkur væri borgað fyrir það. Aðstæðurnar fyrir fjölskyldufólk eru mjög góðar á Geilo með fjölmörgum barna- og byrjendasvæðum. Þar eru rólegar toglyftur eða jafnvel lítil færibönd sem ferja púkana hægt en öruggt á áfangastað. Því náðu litlur guttarnir töluverðum framförum og ekki síst Eliot sem er nýorðinn 4 ára. Hann var farinn að skíða alveg sjálfur í lok ferðar. Frænkurnar, sem eru á aldrinum 7-9 ára, ásamt stóra frænda sem er nýorðinn 13, fundu sér líka brekkur við hæfi og ekki skemmdi fyrir að víðs vegar var hægt að skíða inn á milli trjáa, um þröngar rennur með “pomsum” eins og þau kölluðu það.

hlynurski.jpg

arndisski.jpg

Þar að auki voru uppsettar nokkrar svigbrautir með ókeypis tímatöku. Við urðum náttúrulega að prófa það og ég smellti af krökkunum þar sem þau þeystu fram hjá. Hér að ofan má sjá Hlyn og Arndís og svo að neðan Bjargey og Manon.

bjargeyski.jpg
manonski.jpg

Heja Norge 1

flugvelabstract.jpg

Þá loksins hefur maður smá tíma til að blogga. Ferðin til Noregs var mjög fín, þrátt fyrir nokkur veikindi í hópnum. Við flugum með SAS Braathens klukkan fjögur síðdegis, sem er velkomin nýjung í ferðalögum okkar Íslendinga í stað þess að rífa sig upp um miðja nótt og vera svo fyrsta sólarhringinn í fríinu að jafna sig á svefnleysinu. Hins vegar eru SAS Braathens svolítið sér á parti hvað það varðar að senda einungis sumum farþegum sínum farmiða í pósti. Þannig fékk systir mín ekki miðana fyrir sig og börnin sín og þar á meðal voru líka miðarnir fyrir mig og börnin þar sem við gengum frá bókuninni saman með einu greiðslukorti. SAS Braathens nota sem sagt ennþá einhverja snepla sem kallast flugmiðar, en öll önnur flugfélög eru löngu búin að leggja þennan óþarfa niður í sparnarðaskyni. Þau ættu kannski að endurskoða það því þetta er ágætis tekjulind! Það kostar nefnilega 4000 kr. pr. flugmiða að gefa út (prenta út) flugmiða á skrifstofunni í Leifstöð. Hvergi var tekið fram við kaupin á Netinu að maður fengi svona flotta flugmiða senda og að ekki myndi nægja að mæta með staðfestingarkóðann sem uppgefinn er við kaupin. Sniðugt hjá þeim!

ari_flugvel1.jpg

onboard1.jpg

Þetta sló þó ekkert á gleði okkar við að vera að fara í skíðafrí og Ari Carl var sérstaklega góður í flugvélinni. Hann var reyndar hálf lasinn sem skýrir kannski rólegheitin. Við lentum 22.30 að staðartíma, sóttum farangurinn, fengum bílaleigubílana og ókum svo að Gardemoen Bed and Breakfast þar sem við gistum þessa fyrstu nótt. Daginn eftir ókum við svo til Geilo en það eru um 250km þangað frá Gardemoen og Oslo. Það er svolítið seinlegt að keyra þessa leið enda eru vegirnir frekar þröngir þar sem þeir liggja um fjöll og dali. Fyrsta daginn á Geilo notuðum við því bara til að kaupa inn mat og koma okkur fyrir í bústaðnum, en hann er í eigu systurdóttur pabba og var smíðaður af Mats “eldri” afa mínum. Það var því gaman fyrir okkur að endurlifa gamla tíma frá þessu húsi. Þetta er hin myndarlegasta Hytta sem fer létt með að hýsa 10-12 manns. Eins og sjá má var nægur snjór á Geilo og tilhlökkun að komast í brekkurnar daginn eftir.

matsbo.jpg