Vetrarfrí

Sumarhúœs við Hæðargarðsvatn, sunnan við Kirkjusbæjarklaustur. ©2009 Christopher Lund
Sumarhúœs við Hæðargarðsvatn, sunnan við Kirkjusbæjarklaustur. ©2009 Christopher Lund

Við hefðum alveg getað hugsað okkur að vera tvær til þrjár vikur í sumarbústaðnum Klausturbúð, sem stendur við Hæðargarðsvatn sunnan við Kirkjubæjarklaustur. Þetta er afskaplega fallegt svæði og ekki sveik veðrið um helgina. Það er ekki beint gefið að fá logn í fjóra daga og allt að 10 stiga hita í lok október.

Ari Carl að tefla. ©2009 Christopher Lund
Ari Carl að tefla. ©2009 Christopher Lund

Ari Carl veiktist reyndar á fyrsta degi. Við vorum dauðhrædd um að hann væri komin með hina alræmdu svínaflensu. En sem betur fer varð hann ekki mjög veikur. Á meðan ég fór með stelpurnar í bíltúr á laugardaginn voru hann og Margrét því eftir í bústaðnum. Margrét að prjóna og hann horfði á teiknimyndir sem ég leigði í sjoppunni á Klaustri.

Arndís og Bjargey við Núpsstaði, Lómagnúpur í baksýn. ©2009 Christopher Lund
Arndís og Bjargey við Núpsstaði, Lómagnúpur í baksýn. ©2009 Christopher Lund

Við fórum að Núpsstöðum, skoðuðum bæinn og kirkjuna og tókum nokkrar myndir. Þaðan lá leiðin austur í Skaftafell þar sem við gengum upp að Svartafossi áður en við nestuðum okkur í hinum fallega Lambhaga. Því næst fór ég með þær upp á Svínafellsjökul. Systrunum fannst spennandi að komast alveg að jökuljaðrinum og heyra að hann er “lifandi”. Það brast reglulega í honum og við heyrðum drunur úr fjarska þar sem hann skríður niður bratta hlíðina.

Melgresi á Skeiðarársandi, Öræfjajökull og Hvannadalshnjúkur í baksýn. ©2009 Christopher Lund.
Melgresi á Skeiðarársandi, Öræfjajökull og Hvannadalshnjúkur í baksýn. ©2009 Christopher Lund.
Hauststemning í Skaftafelli. ©2009 Chrisotpher Lund.
Hauststemning í Skaftafelli. ©2009 Chrisotpher Lund.

Ég pæli oft í því hvað það er magnað að geta farið úr bænum og upplifað íslenska náttúru svo gott sem einsamall. Fyrir utan hinn hefðbundna ferðatíma á sumrin eru afar fáir á ferli. Það eru forréttindi sem við skynjum ekki öll. Þetta hljómar kannski eins og ég sé félagsfælinn? Það er ekki málið. Það er bara svo dásamlegt að fá stundum að “eiga” Ísland einn.

Arndís við Lambhaga í Skaftafelli. ©2009 Christopher Lund.

Ég er enn að prófa Nikon D3x vélina hans pabba og tók hana með um helgina. Því meira sem ég nota hana því hrifnari verð ég. Það tekur reyndar nokkurn tíma að stilla hana þannig að hún hegði sér eins og maður vill. En eftir þessa fáu daga er ég farinn að þekkja hana vel að er fljótur að breyta stillingum eftir aðstæðum. Það er eitt sem kom mér töluvert á óvart. Vélin er ekki með hreinsibúnað á skynjaranum líkt og flestar stafrænar SLR vélar í dag. Fyrir vikið sé ég þónokkra rykbletti í myndunum sem hefur fjölgað í takt við fjölda linsuskipta í ferðinni. Þessi hristibúnaður virkar a.m.k. mjög vel á Canon vélunum mínum. Þó að hann geri ekki hreinsun á skynjara óþarfa þá hjálpar það mikið til. Kemur án efa í næstu uppfærslu þar sem nýja D3s er kominn með slíkan búnað.

Við jaðar Svínafellsjökuls. ©2009 Christopher Lund.
Við jaðar Svínafellsjökuls. ©2009 Christopher Lund.

Eitt tek ég sérstaklega eftir sem mun á milli Nikon og Canon. Ljósmæling á TTL uppfyllingarflassi er töluvert nákvæmari á Nikon. Ég nota on-camera TTL flass afar sjaldan á Canon. Það er ekki síst vegna þess að mér leiðist hversu ónákvæmt það er. En á Nikon er það allt annað. Þessi mynd að ofan er gott dæmi um góða virkni á uppfyllingarflassi. Það opnar skuggana vel en sést varla í myndinni sem auka ljós.

Hoppað í heitan pott. ©2009 Christopher Lund.

Annars lék ég mér töluvert með flöss í ferðinni, nokkuð sem ég geri allt of sjaldan. Ég var með eitt Canon EX 580II og Nikon SB-800. Nota svo Pocket Wizard til að fýra þeim af. Það er magnað hvað hægt er að gera með þessum litlu flössum. Sýnir manni að það er ekki alltaf nauðsynlegt að nota stór og dýr ljós eins og t.d. Profoto. Auðvitað er aflið ekki það sama og áreiðanleikinn að sama skapi minni. Á móti kemur að maður er eldsnöggur að setja þau upp og það er miklu auðveldara að koma þeim fyrir á þröngum stöðum.

Ég væri mikið til í að prófa þráðlausa flasskerfið frá Nikon, en SB-900 er með innbyggðum þráðlausum móttökurum. Svo er hægt að nota þessa græju til að fýra flössunum af og til að stilla aflið, sem er náttúrulega algjör snilld.

Systkinin fyrir utan bústaðinn. ©2009 Christopher Lund.
Systkinin fyrir utan bústaðinn. ©2009 Christopher Lund.

Það er ljóst að samkeppnin hefur harðnað töluvert fyrir Canon. Þeir kynntu nýju Canon EOS 1D Mark IV örfáum dögum eftir að Nikon sagði frá D3s. Það er talsverður munur á eðli 12.5 MP full-frame skynjara og svo skynjara á 16MP 1.3x crop vél. Stærð pixlana er aðalatriðið þegar kemur að suði. Meiri upplausn á minni skynjara þýðir auðvitað minni pixlar. Sumir hafa því haft ákveðnar efasemdir um það að nýji ásinn frá Canon geti verið jafn góður og D3s frá Nikon. Canon hefur endurhannað skynjarann frá grunni. Þeir fullyrða að þrátt fyrir að stærð pixlana fari umtalsvert niður, safni nýji skynjarinn meira af ljósi en áður hefur tekist. Sú staðreynd auk enn öflugri úrvinnslu með tveimur Digic 4 örgjörvum þýðir að vélin nær að vera sú “hreinasta” hingað til frá Canon.

Hér eru svo fleiri myndir frá ferðinni sem slideshow.