Útileguburst

Burstað á Eyjólfsstöðum í Fossárdal. ©2010 Christopher Lund.

Það er óhætt að segja að sumarið 2010 hafi verið gott til ferðalaga. Við vorum tæpan mánuð samfleytt úr bænum og eyddum mestum tíma fyrir norðan. Eyjafjörður, Aðaldalur, Ásbyrgi og Langanes fyrir norðan. Norðfjörður, Stöðvarfjörður og Fossárdalur fyrir austan. Og veðrið lék við okkur svo gott sem allan tímann. Lygilegt alveg.

Í fríi ljósmynda ég ákaflega mismikið. Ég forðast yfirleitt “hefðbundna” landslagsljósmyndun, en mynda auðvitað landslagið og umhverfi í bland við börnin og hvað sem við erum svo að bralla með þeim. Þetta er tími til að hlaða sig upp af orku og það er misjafnt hvernig maður er í upphafi sumarfrís. Stundum er ég svo útkeyrður að ég hef varla orku í neinar myndapælingar. Það rjátlar þó fljótt af mér, fjölskyldunni til skelfingar. Hún þarf að hafa ákveðna þolinmæði gagnvart þráhyggjunni við að skjalfesta samtímann.

Myndirnar fimm sem rúlla sem slideshow á síðunni eru frá heimsókn í Hrísey þann 26. júlí síðastliðinn. Magnaður staður Hrísey.

Vestfirðir, Strandir og Sléttan

Jæja, þá er maður kominn aftur í bæinn eftir rúmlega þriggja vikna ferðalag um Vestfirði, Strandir og Melrakkasléttu.

Lánið lék við okkur fyrir vestan og við vorum veðurteppt í blíðu, aldrei þessu vant. Dag eftir dag vöknuðum við í sól og hita. Við tjölduðum á Laugum í Sælingsdal, Tálknafirði, Núp í Dýrafirði (yfir Holugeitungabú!), Reykjarfirði, Súðavík, Hólmavík, Norðurfirði á Ströndum og á Dæli í Víðidal. Tvær vikur í tjaldvagninum og við vorum orðin vel útilegin.

Síðustu vikuna gistum við innandyra, því fyrir norðan var skítakuldi og rigning, sérstaklega á Mývatni. Við eyddum svo síðustu dögunum í þessari ferð með vinum okkar á Melrakkasléttu, sem er farin að verða fastur áningarstaður á hverju sumri, þökk sé Andra Snæ.

Ferðasagan í heild væri full langur póstur. Ég læt því næga að velja nokkrar myndir frá ferðalaginu, því mynd segir jú meira en þúsund orð. Mynd með myndtexta ennþá meira.

Ég mæli eindregið með því að skoða myndirnar stórar með því að smella á “fullscreen” merkið sem annað frá hægri neðan við myndirnar. Til að fá myndatextann fram er farið með músarbendilinn yfir myndina og þá birtist hann að ofan.

Útilega tvö

Ari Carl og Logi á tjaldstæðinu við Leirubakka. ©2009 Christopher Lund.
Ari Carl og Logi á tjaldstæðinu við Leirubakka. ©2009 Christopher Lund.

Um síðustu helgi fórum við í aðra útilegu sumarsins. Það var þétt umferðin út úr bænum enda frábær spá fyrir helgina. Í Kömbunum skapaðist halarófa sem náði alla leið að Hveragerði. Hringtorgin sem búið er að innleiða svo víða eru ágæt þangað til að umferðin er orðin þung, þá skapa þau flöskuhálsa. En við vorum svo sem ekkert að pirra okkur á því enda vorum við ekki að fara svo langt.

Ferðinni var heitið í Galtalæk. Þar var hins vegar algjörlega ólíft fyrir flugu. Mývatn er bara barnaskapur miðað við þetta! Svolítil synd, því tjaldstæðið í Galtalækjarskógi er með þeim fallegustu á landinu. Við fórum tilbaka að Leirubakka þar sem flugan var ekki eins rosaleg. Við smelltum upp tjaldvögnunum þar á fínum stað ásamt tengdó og skömmu síðar komu vinir okkar Árni og Hildur ásamt börnum.

Landmannalaugar. ©2009 Christopher Lund.
Landmannalaugar. ©2009 Christopher Lund.

Á laugardeginum fórum við inn í Landmannalaugar í blíðskaparveðri. Þar var margt um manninn eins og við má búast á þessum árstíma. Helst eru það þó útlendingar sem tjalda í Landmannalaugum. Æ fleiri Íslendingar í “útilegu” eru háðir rafmagni og öðrum lúxus og því sér maður ekki marga landa sína tjalda þar. Svo er auðvitað ekkert grín að hossast með fellihýsi og hvað þá hjólhýsi á hálendisvegunum!

Brennisteinsalda. ©2009 Christopher Lund.
Brennisteinsalda. ©2009 Christopher Lund.
Ari Carl tekur mynd af Bjargey í Landmannalaugum. ©2009 Christopher Lund.
Ari Carl tekur mynd af Bjargey í Landmannalaugum. ©2009 Christopher Lund.

Við tókum gönguhringinn góða, gengum með Grænagili upp að Brennisteinsöldu og svo niður fram hjá Vondugiljum niður að Laugum. Þetta er auðveld ganga fyrir jafnt börn sem fullorðna. Það er ljóst að við hjónin þurfum að koma aftur seinna í sumar eða haust til þess að eyða helgi við að ganga á þessu svæði, þvílíkur ævintýraheimur!

Arndís með vatnsbyssu í Landmannalaugum. ©2009 Christopher Lund.
Arndís með vatnsbyssu í Landmannalaugum. ©2009 Christopher Lund.
Ljótipollur. ©2009 Christopher Lund.
Ljótipollur. ©2009 Christopher Lund.

Eftir vel heppnaða göngu var ákveðið að grilla og snæða kvöldmat áður en við héldum tilbaka á Leirubakka. Á heimleiðinni fórum við upp að Ljótapolli sem er alltaf gaman, sérstaklega í fallegri kvöldsól. Til að breyta til tókum við Hrauneyjaveginn tilbaka. Hann er sínu leiðinlegri yfirferðar en Landmannaleiðin um Dómadal.

Hoppað útí sundlaug. ©2009 Christopher Lund.
Hoppað útí sundlaug. ©2009 Christopher Lund.

Á sunnudeginum skelltum við okkur í sund í Laugaland. Þar gafst tækifæri til að prófa nýju myndavélina sem ég hafði verslað fyrir ferðina. Þessi er tilvalin fyrir krakkana í sumarfríið.

Eftir sundferðina fóru Hildur og Árni að búa sig til heimferðar en við ætluðum að vera eina nótt í viðbót. Fórum seinnipartinn að skoða tvo áhugaverða staði í nágrenninu, en þá fundum við í bókinni hans Páls Ásgeirs – 101 Ísland – sem ég minntist á um daginn.

Ari skoðar Hellnahellir. ©2009 Christopher Lund.

Fyrst var það stærsti manngerði hellir á landinu; Hellnahellir eða Fjóshlöðuhellir. Hann er grafinn í sandstein og er í heild sinni um 50m langur og um 200 fermetrar að flatarmáli. Margir telja að Papar hafi grafið hellinn fyrir landnám. Víða í hellum á Suðurlandi finnast ristur og krossmörk í hellisveggjum líkt og í þessum. Það er óhætt að mæla með heimsókn í Hellnahelli.

Landréttir í Réttarnesi. ©2009 Christopher Lund.
Landréttir í Réttarnesi. ©2009 Christopher Lund.

Því næst ókum við að Landréttum Í Réttarnesi. Þær eru ekki alveg í alfaraleið, en bókin góða vísaði okkur veginn örugglega. Réttir þessar eru hlaðnar úr grjóti og þar var réttað frá 1660 til 1979. Mjög gaman að koma þarna og skoða þessar fallegu réttir, sem eru svo snilldarlega staðsettar í landinu.

Á veginum inn í Hrafntinnusker. ©2009 Christopher Lund.
Á veginum inn í Hrafntinnusker. ©2009 Christopher Lund.

Á mánudeginum var planið að fara inn í Hrafntinnusker. Það er þó hægara sagt en gert að komast þangað nema á mjög vel búnum jeppum. Við komumst áleiðis á okkar ástkæra Pajero, upp í ca. 1000m hæð, en þar ákvaðum við að stoppa frekar en að festa okkur í snjó. Hringdum í tengdó þegar við vorum komin upp brekkuna til að tékka á þeim. Þau höfðu þá komist í ógöngur þegar þau þurfu að bakka í brattri brekkunni og misst bílinn út af slóðanum. Við héldum því strax tilbaka til bjargar. En áður en ég náði til þeirra var kominn hjálpfús jeppamaður sem á vel búnum bíl sínum kippti þeim upp úr þessu.

Tengdó bjargað úr ógöngum. ©2009 Christopher Lund.
Tengdó bjargað úr ógöngum. ©2009 Christopher Lund.

Við ákvaðum að geyma Hrafntinnusker og fara frekar inn að Landmannahelli og freista þess að renna fyrir fisk. Við Landmannahelli er hægt að kaupa veiðileyfi. Við ákvaðum að prófa Löðmundavatnið frekar en að aka tilbaka að Frostastaðavatni, þó að þar sé meiri veiðivon og meira um stærri fisk.

Við Löðmundarvatn. ©2009 Christopher Lund.
Við Löðmundarvatn. ©2009 Christopher Lund.

Krakkarnir skemmtu sér vel við að veiða, en Arndís var þó þrjóskust við þessa iðju. Í tvígang elti fiskurinn færið alveg upp að landi svo hún var staðráðinn í því að ná í fisk. En hún varð þó að játa sig sigraða að lokum.

Arndís veiðir í Löðmundaravatni. ©2009 Christopher Lund.
Arndís veiðir í Löðmundaravatni. ©2009 Christopher Lund.

Við ókum svo í rólegheitum tilbaka Landmannaleiðina í fallegri kvöldsól. Það var töluvert mistur og svolítið ævintýranleg birta. Skemmtilegri útileguhelgi var nú senn lokið.

Jógaferðamenn á Landmannaleið. ©2009 Christopher Lund.
Jógaferðamenn á Landmannaleið. ©2009 Christopher Lund.
Lost in Iceland rip-off. ©2009 Christoher Lund.
Lost in Iceland rip-off. ©2009 Christoher Lund.

Eftir viku verðum við svo öll komin í sumarfrí og þá er stefnan sett m.a. á Vestfirði. Svo langar okkur að fara norður og helst alla leið úr á Langanes. Get ekki beðið…